151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra góð svör. Það er rétt, við munum fara vel yfir þetta nefndin, með og án hæstv. ráðherra, þegar málinu verður vísað þangað. Mér þætti vænt um að fá „komment“ varðandi hlutabótaleiðina í seinni umferð. Þá er kannski komið þemað: Beðið eftir hæstv. menntamálaráðherra. Mig langar til að fá hæstv. ráðherra til að segja mér hvenær þess sé að vænta að íþróttafélögin fái að sækja um og mun frekar um greiðslur úr þessum sjóði sem boðað er að ráðherra íþróttamála ætli að setja á laggirnar samhliða þessu. Alveg óháð því hversu ágætt þetta mál er, og vonandi mun það batna í meðförum velferðarnefndar, er staðreyndin sú að því er ætlað að kljást við framtíðarvanda. Íþróttafélög landsins búa við fortíðarvanda og nútíðarvanda. Það er það sem við þurfum að takast á við núna. Nú veit ég að hæstv. félagsmálaráðherra er ekki með þann hluta, þ.e. fortíðina og nútíðina. Það er sjóður sem menntamálaráðherra verður með. En í ljósi þess sem fram hefur komið um að þessi mál séu unnin samhliða hlýtur hæstv. ráðherra að geta svarað því hvenær við sjáum íþróttafélögin fá fullvissu um þau mál.