151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:44]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hlutabótaleiðin var framlengd var mikil umræða um með hvaða hætti ætti að setja inn skilyrði við hana. Það sem var gert var að taka upp sambærileg skilyrði og gert var í uppsagnarstyrkjunum sem gerði það að verkum að skilyrði voru um ótakmarkaða skattskyldu sem undanskildi þar með íþróttafélögin. Það var ekki hugsað til að undanskilja íþróttafélögin en vegna þess að sömu skilyrði voru beggja megin undanskildi það íþróttafélögin sjálfkrafa. Það var ekki meðvitaður ásetningur að undanskilja þau.

Síðan vil ég segja að við gerum ráð fyrir því að ef allt gengur upp og við afgreiðum þetta frumvarp geti Vinnumálastofnun í janúar tekið fyrsta skammt í þessu aftur til 1. október. Eðlilega þarf að bjóða mönnum að sækja um o.s.frv., kalla eftir gögnum og annað slíkt. Við gerum líka ráð fyrir að tillaga um fjárveitingar geti komið inn við 2. umr. fjárlaga varðandi íþróttafélögin. Fjárheimildin virkjast þá 1. janúar. Menntamálaráðherra mun síðan kynna, og getur ugglaust gert það líka fyrir nefndinni, með hvaða hætti hægt verður að sækja um þá fjármuni, bæði til verktakagreiðslna (Forseti hringir.) og greiðslna vegna tekjufalls í sumar (Forseti hringir.) sem eru sambærilegar þeim 500 milljónum. Vonandi getur það gerst á sambærilegum tíma, (Forseti hringir.) strax í byrjun nýs árs.