151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf auðvitað ekkert að fjölyrða um vandræðin sem íþróttafélögin eru í núna. Þau berjast í bökkum. Enn síður þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að þau haldi sjó. Skuldir hafa verið að hrannast upp og það gæti haft varanleg áhrif á starfsemi þeirra með skaða fyrir iðkendur, bæði afreksíþróttafólk og ekkert síður börn og unglinga. Af því að hér áðan var talað um að brúa eitthvert bil þá verður að hafa í huga að skoða vandamálin 10 til 11 mánuði aftur í tímann. Það hefur skapast alveg svakalegur vandi.

Ég tek undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, að það skiptir gríðarlega miklu máli að hægt sé að sækja um strax. Best væri auðvitað að hægt væri að byrja að nýta hlutabótaleiðina strax. Síðan þarf líka að aðstoða félögin með þann vanda og skafl sem safnast hefur upp.

Mig langar í fyrsta lagi að fá útskýringar á því af hverju fjármálaráðuneytið telur að fara þurfi þessa aukaleið með þennan sjóð í gegnum menntamálaráðuneytið sem gerir ekkert nema flækja málið og setja forsvarsmenn íþróttafélaganna í stórkostlega óvissu.

Í öðru lagi: Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra komi inn með mál er varða þennan sjóð og hversu miklar upphæðir erum við að tala um? Við erum hreinlega, hæstv. ráðherra, að horfa upp á það að ef við grípum ekki til nógu markvissra og skjótra aðgerða sem ná til vanda alveg frá 1. mars (Forseti hringir.) þá erum við að skapa mikinn skaða fyrir samfélagið.