151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra má ekki misvirða það við okkur þó að við spyrjum aðeins út í þetta. Við erum auðvitað þakklát fyrir að málið komi fram. Það er góður ásetningur en það er hins vegar vonum seinna. Það er bara mjög mikilvægt að málið nái utan um þann raunverulega vanda sem er. Það er auðvitað rétt að aðstæður breyttust 1. október. En gleymum því ekki að fyrir þann tíma, og alveg frá því í mars, sköpuðust aðstæður þar sem iðkendum fækkaði, fjöldi áhorfenda var takmarkaður og, ekki síst, styrkir frá fyrirtækjum sem íþróttafélög eru mjög háð hrundu. Það verður að grípa þetta með einhverjum hætti. Við skulum bara taka höndum saman núna og bæta frumvarpið í meðförum nefndarinnar þannig að úrræðin verði skjótari, verði nógu mikil. Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hafi unnið þetta í fullu samráði og sátt við íþróttahreyfinguna.