151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi erum við að tryggja fyrirsjáanleika fyrir íþróttahreyfinguna jafn lengi og lokunarstyrkirnir eru. Við erum að skapa úrræði sem lúta að því að brúa alla þá óvissu sem fram undan er. Við erum að segja: Það kemur í ljós á endanum hvað þetta kostar vegna þess að við ætlum að grípa inn í. Komið var inn í með tekjufallsstyrki fyrir 1. júní, eins og ég nefndi, vegna þess að þar var fyrst og fremst tekjufall. Við erum að breyta um kúrs núna og fara inn í rekstrarhlutann. Það erum við að gera í þessu frumvarpi og með öðrum aðgerðum.

Síðan vil ég segja að ég er sannfærður um að nái þetta frumvarp fram að ganga muni það skipta mjög miklu fyrir íþróttahreyfinguna. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um mikilvægi þess að eftir þetta standi íþróttahreyfing sem bæði er tilbúin til að halda utan um yngriflokkastarf hér í landinu fyrir börn og ungmenni (Forseti hringir.) og líka að skapa öflugt afreksstarf (Forseti hringir.) sem skiptir miklu máli varðandi fyrirmyndir og annað í þeim dúr. (Forseti hringir.) Þannig að ég tek almennt undir með hv. þingmanni.