151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi og verð að taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og Loga Einarssyni hvað varðar skilningsleysi mitt a.m.k., svo ég tali nú bara um mig, á því hvers vegna verktakarnir eru teknir út af því að við sem þekkjum eitthvað til vitum að langflest íþróttafólk er á einhvers konar slíkum samningum. Þar með er verið að taka allar launagreiðslur eða meiri hluta launagreiðslna er varða íþróttafólkið út fyrir sviga. Þá erum við að tala um að við erum hér að afgreiða frumvarp til laga um greiðslur vegna launakostnaðar starfsfólks og húsvarða og eitthvað slíkt mögulega. Gott og vel, en flækjustigið, það er verið að auka það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í tvennt: Annars vegar um þessa styrki sem þá verða hjá hæstv. menntamálaráðherra og hvers vegna það er talið heppileg leið af því að hér er bara verið að tala um greiðslur sem fara í gegnum Vinnumálastofnun og þar er fullkomið gagnsæi eftir einhverjum ákveðnum reglum. En þegar um er að ræða styrkveitingar frá ráðuneytinu ríkir mun minna gagnsæi. Það verður einhver pottur sem íþróttafélögin sækja í og við höfum séð það áður að útdeilingar eru í rauninni ekki endilega í samræmi við það tekjutap sem félögin verða fyrir heldur eru notuð einhver önnur viðmið, eins og fjöldi barna í hverfum eða eitthvað annað sem í rauninni kemur tekjufallinu lítið við. Ég vildi fá álit hæstv. ráðherra á þessu.