151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:55]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði vorum við upphaflega að vinna með það að verktakan væri inni í þessu frumvarpi. Hins vegar var ákveðið í samstarfi við fjármálaráðuneytið að búa til sérstakan sjóð sem héldi utan um það sérstaklega af þeim rökum sem ég nefndi hér áðan. En fjármagnið er engu að síður tekið til hliðar og áætluð sama fjárhæð í það eins og þetta. Það er því ekki hægt að halda því fram að verið sé að skilja þann hluta eftir vegna þess að það er sannarlega verið að taka fjármagn í hann.

Ég útskýrði það líka að við vorum að vinna með hitt upphaflega. Hins vegar vil ég líka segja að það er heldur ekki alveg rétt sem hv. þingmaður heldur fram, að það séu eingöngu húsverðir og eitthvað slíkt á launum vegna þess að þær tölur sem við höfum fengið frá íþróttahreyfingunni sjálfri sýna að það er breytileiki í þessu. Hér á höfuðborgarsvæðinu er t.d. áætlað að í það minnsta 40% sé á launaskrá á meðan 60% sé með einhvers konar verktöku en úti á landi er þetta öfugt, 60/40. Þannig að reiknað er með því að þetta sé svona 50/50 til verktaka og launa samkvæmt tölum sem koma frá íþróttahreyfingunni sjálfri.

Síðan vil ég segja það varðandi tekjufallsstyrkina sem voru veittir í sumar, 500 milljónir og gert ráð fyrir annarri „porsjón“ á því til 1. október, að þeir fóru í gegnum íþróttahreyfinguna sjálfa sem mótaði ákveðnar leikreglur í því og úthlutaði styrkjum sem ráðherra síðan staðfesti. Væntanlega fer þetta í gegnum svipaðan farveg varðandi hinn hluta aðgerðanna. En það er hins vegar alveg rétt að þegar við erum með frumvarp horfir það aðeins öðruvísi við og í þessu frumvarpi er allt skýrt hvernig úthlutunin fer fram. Það mun verða Vinnumálastofnun sem fer yfir þau gögn og séu umsækjendur ósáttir við það geta þeir kært niðurstöðuna til úrskurðarnefndar velferðarmála.