151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Á bls. 5 í frumvarpinu er talað um mat á áhrifum og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Frumvarpinu er ætlað að taka til íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og er gert að fella tímabundið niður starfsemi á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í skilningi frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að með íþróttafélagi sé átt við lögaðila innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þ.m.t. einstakar deildir sem starfa á vegum viðkomandi lögaðila. Má því ætla að frumvarpið nái til um 33 sérsambanda, 25 héraðssambanda/íþróttabandalaga og um 408 íþrótta- og ungmennafélaga.“

Hæstv. ráðherra sagði að heildarfjárhæð væri 500 milljónir. Þarna er u.þ.b. 500 lögaðilar undir. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Við höfum gengið í gegnum það áður með frumvarp frá hæstv. ráðherra sem kemur inn í þingið, algerlega vanmetið fjárhagslega. Getur verið að það sé raunin með þetta þegar 500 félög eiga að skipta á milli sín 500 milljónum?