151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Já, ég tel fulla ástæðu til að þessi vinna verði í hv. velferðarnefnd. Við þurfum að spyrja spurninga og fá svör frá hæstv. fjármálaráðherra um það hvers vegna hann fer í þann leiðangur að krefjast þess að verktakar séu teknir út úr þessu frumvarpi. Ef rétt er, sem ég býst nú við, hjá hæstv. félags- og barnamálaráðherra, að tilgangurinn sé að ýta íþróttafélögunum í að færa verktaka yfir í launþega þarf að koma skýrt fram í frumvarpinu að ef íþróttafélögin eru tilbúin til að færa núverandi verktaka yfir á launþegasamning þá muni þetta líka gilda fyrir þá aftur í tímann, þ.e. þegar þeir voru verktakar, frá 1. október. Það er ekki hægt að klippa það þannig af. Ef það er hvatinn að reyna að fá alla til að semja um að viðkomandi verði launþegi þarf að gera það þannig.

Samningar við íþróttafólk eru yfirleitt tímabundnir og það er væntanlega þess vegna sem sú leið er farin að gera einhvers konar verktakasamning af því að þeir lúta öðrum reglum varðandi uppsagnir og þess háttar. Það er inni í ákveðnum ramma. En ef þetta snýst eingöngu um það að hæstv. fjármálaráðherra vilji einhvern veginn koma í veg fyrir verktakasamninga er ég ekki viss um að þetta sé rétti tímapunkturinn.