151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs. Ég held að engum blandist hugur um það hversu mikilvæg íþróttafélögin eru öllu æskulýðs- og tómstundastarfi í landinu, hversu mikilvæg þau eru í því að efla lýðheilsu og í því að taka þátt í uppeldi komandi kynslóða, líkamlegu, andlegu og ekki síður félagslegu. Hafandi sagt það þá þarf kannski engum að koma á óvart að mér finnst þetta frumvarp tímabært. Það mun vafalítið gera sitt gagn gagnvart íþróttahreyfingunni, hjálpa henni að fá þá sömu viðspyrnu og við erum til að mynda að ætla í frumvarpi um viðspyrnustyrki.

Það eru nokkur atriði sem hv. velferðarnefnd þarf vafalítið að skoða í vinnslu málsins. Það er til að mynda þannig, og það hefur raunar komið fram í umræðunni, að auðvitað eru íþróttafélögin misjöfn. Þau njóta mismikils stuðnings af hálfu þeirra sveitarfélaga sem þau starfa í. Sum íþróttafélög eru hreinlega með samstarfssamninga við sveitarfélögin þar sem sveitarfélögin borga tiltekinn fjölda starfsmanna fyrir þau en fá í staðinn, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á áðan, tiltekna þjónustu frá þessum sömu íþróttafélögum. Þetta er langoftast mjög gott samstarf en það þarf einhvern veginn að vera á hreinu að ekki sé þá verið að sækja sérstaklega um aukastyrki vegna þessara starfsmanna þar sem sveitarfélögin eru kannski að borga þeim laun.

Þá hefur aðeins verið komið inn á það í umræðunni að þeir verktakar sem vinna á vegum íþróttafélaganna, oft og tíðum við þjálfun, ættu með einhverju móti að vera inni í þessu frumvarpi. Ég tel að það sé í sjálfu sér ekki þörf á því. Þeir verktakar, svo framarlega sem þeir eru skattskyldir á Íslandi, ættu í rauninni, alla vega eins og ég skil frumvarpið um viðspyrnustyrki, að passa inn í þann ramma og geta þá fengið stuðning þar hafi þeir misst af tekjum vegna faraldursins.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hlakka til að vinna með þetta mál í hv. velferðarnefnd og vona að málið geti gengið þar fljótt og greitt í gegn til heilla fyrir þá sem þurfa á þessum stuðningi að halda.