151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langaði að segja nokkur orð um það frumvarp sem liggur fyrir varðandi greiðslur til íþróttafélaga á tímum Covid. Það er auðvitað gott að loksins sé gengið til þess verks að styðja við það mikilvæga starf sem unnið er í íþróttafélögunum. Það er í sjálfu sér athyglivert, eins og segir í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Reynslan hefur sýnt að þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins hafa ekki nýst íþróttafélögum nægilega vel.“

Þetta er svo ljóst að það er meira að segja talin ástæða til að nefna það sérstaklega í greinargerð frumvarpsins. Það að þetta hafi tekið tíu, ellefu mánuði síðan veiran fór að láta á sér kræla er auðvitað athyglivert um leið og það er kannski að einhverju marki ámælisvert. Íþróttafélögin hafa orðið fyrir ótrúlegu höggi og margþættu. Tekjur af miðasölu fyrir áhorfendur hafa hrunið, sérstaklega hjá þeim félögum sem eru í hópíþróttum; handbolta, körfubolta og fótbolta, en auðvitað hjá öðrum líka. Það er erfiðara um styrktarsamninga hjá félögum, bara út af almennum aðhaldsaðgerðum fyrirtækja í rekstri.

Kostnaður íþróttafélaganna fer hægt niður þegar svona ástand brestur á, það eru virkir samningar og fleira slíkt sem þarf að virða. Síðan er auðvitað spurning hvort hér sé ekki verið að ganga til þess verks, loksins, að styðja við íþróttahreyfinguna og íþróttafélögin en innbyggja allt of flókið regluverk til að það geti gengið eftir. Nokkur atriði í frumvarpstextanum benda til þess að settir séu upp ýmsir þeir þröskuldar sem hefur verið gagnrýnt undanfarið hvað aðrar aðgerðir stjórnvalda varðar að hafi orðið til þess að markmið aðgerðanna hafa ekki náðst. Það er t.d. atriðið sem snýr að því að hér sé eingöngu horft til þess að styrkja launamenn íþróttafélaganna en ekki þá sem starfa sem verktakar hjá þeim. Það er þekkt í starfsumhverfi íþróttafélaganna að mikið er notast við verktakasamninga. Það orsakast m.a. af því að mjög margir hafa störfin ekki sem heilsársstörf, ráðningarverkefni eða verktakasamningar eru tengdir tímabilum, t.d. tímabili innanhússhandbolta eða körfubolta eða síðan knattspyrnunnar ef út í það er farið. Það er því hefð fyrir því að notast við verktakasamninga. Ég vil vara við því að eins og þetta liggur fyrir í þessu frumvarpi sé svona mikil áhersla lögð á, ég ætla að leyfa mér að segja, það undirliggjandi markmið að ýta þessum geira í fyrirkomulag þess að starfskraftar allir verði launamenn. Ég ætla að leyfa mér að orða það þannig, þ.e. að Covid-tækifærið sé nýtt til að ýta þessu í þann farveg. Mér þykir ekki góður bragur á því. Það hefði þá verið lágmark að einhver gangskör hefði verið gerð að því á fyrri stigum að ýta íþróttahreyfingunni í þessa átt þannig að hreyfingin hefði vitað hvað til síns friðar heyrði, ef svo má segja, hvað samskipti við stjórnvöld varðar. Ég held að við vinnslu málsins ætti nefndin að skoða það sérstaklega að víkja frá skilyrðum sem snúa að því að þetta eigi eingöngu við um launamenn en ekki verktaka.

Í 2. gr. þar sem fjallað er um markmið laganna segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að því að íþróttafélög geti hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að þeim hefur verið gert að fella niður starfsemi á tilteknu tímabili …“

Óbreytta — væntanlega er hægt að teygja það dálítið. Engu að síður er það þannig að óbreytt þýðir bara óbreytt. Greinilega er ætlast til þess að afl og geta íþróttafélaga að faraldrinum afloknum verði hin sama og áður. Þá er ekki á vísan að róa með að þetta frumvarp eitt og sér, sem gerir ráð fyrir kostnaðaráhrifum upp á 500 milljónir, skili íþróttafélögunum á þann stað að almennileg viðspyrna geti náðst eftir allt það tekjufall sem hefur orðið og annan afleiddan kostnað af þessum kórónuverufaraldri

Svo að ég komi inn á 5. gr. þar sem er verið að fjalla um greiðslurnar segir þar, með leyfi forseta:

„Heimilt er að greiða íþróttafélagi launakostnað að undanskildum starfstengdum fríðindum og hlunnindum, svo sem bifreiðastyrkjum, dagpeningum eða húsaleigu, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.“

Síðan segir í 1. gr., með leyfi forseta: „… skilyrði fyrir greiðslum verði að íþróttafélagi hafi verið gert að fella niður starfsemi …“

Þarna höfum við hingað til lent í töluverðum túlkunarvandræðum hvað aðrar aðgerðir stjórnvalda varðar. Af því að ég veit að hæstv. ráðherra er næstur í ræðu á eftir mér væri áhugavert að heyra hann — ég missti því miður af framsöguræðu ráðherrans (Félmrh.: Þetta var tímamótaræða.) sem ég gef mér að hafi verið tímamótaræða eins og hæstv. ráðherra nefnir hér úr hliðarsal og við því að búast — fara aðeins í gegnum það hver meiningin er varðandi það að íþróttafélagi hafi verið gert að fella niður starfsemi. Ef við horfum t.d. til fyrirtækja í veitingageiranum sjáum við að það er bitamunur en ekki fjár hvort veitingastaður sem hefur sæti fyrir 200 manns megi taka inn tíu kúnna eins og nú er. Þá væri fyrir marga eflaust allt eins gott að fá skilaboð um að eiga að skella að fullu í lás og njóta þá lokunarstyrkja sem kallaðir eru. Hvað er átt við með því að íþróttafélagi hafi verið gert að fella niður starfsemi? Er það að fella niður æfingarnar? Er það að hleypa ekki starfsmönnum á starfsstöðvar sínar? Í dag eru flestir fundir á Zoom og þar fram eftir götunum.

Á sama tíma ræddum við fyrr í umræðunni í dag, hið minnsta ég við hæstv. heilbrigðisráðherra, að auðvitað sé ótækt að meira að segja afreksíþróttafólk og keppnislið fái ekki að æfa undir ströngum reglum sem þekkist hvergi í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það væri áhugavert ef hæstv. ráðherra væri til í að fara aðeins yfir þetta. Þetta er túlkunaratriði sem væri kostur að yrði skýrt og fært til mildilegs vegar í nefndarvinnunni. Það væri áhugavert að heyra hver skýring og skilgreining hæstv. ráðherra er á þessu. Hér eru auðvitað miklar krúsídúllur sem ganga út á það hvernig ríkissjóður nær krónunum til baka ef einhver mistök verða og ofgreiðsla á sér stað. Ég brýni það fyrir hv. velferðarnefnd að skilja við þá þætti þannig að ofgreiðsla, ef slík kæmi til vegna þessa, valdi ekki seinni tíma kollsteypu hjá þeim félögum sem njóta.

Ég vil aðeins koma aftur að þessu atriði, hvað átt er við með því að fella niður starfsemi. Er þetta lokunarstyrkur? Er þetta einhvers lags hlutabótaútfærsla gagnvart íþróttafélögunum? Eða akkúrat hver er hugsunin? Ég vil bara rifja upp setninguna sem ég nefndi í byrjun úr greinargerð með frumvarpi hæstv. ráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reynslan hefur sýnt að þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins hafa ekki nýst íþróttafélögum nægilega vel.“

Það liggur því fyrir að þær aðgerðir sem hingað til hefur verið gripið til hafa ekki verið að virka fyrir þessa hópa. Þá langar mig um leið að spyrja — af því að ég sé að hæstv. ráðherra skrifar jafnt og þétt niður spurningarnar sem ég velti upp hérna og ætlar að svara þeim öllum eins og um óundirbúna fyrirspurn væri að ræða: — Hvers vegna er þessi áhersla lögð á að ýta íþróttafélögunum í þá átt að þetta eigi eingöngu við um launamenn en ekki verktaka? Það má vera að hæstv. ráðherra hafi komið inn á þetta í framsöguræðu sinni, alveg örugglega, en mig langar til að biðja hann um að koma aðeins aftur inn á það ef tími hans leyfir.

Ég vil að endingu segja að íþróttirnar eru mikilvægur þáttur af afþreyingu okkar sem erum kannski ekki beint að stunda þær dagsdaglega heldur að njóta þess að fylgjast með keppnisíþróttafólki, hvort sem um er að ræða fólk í hópíþróttum, körfubolta, handbolta og fótbolta, eða til að mynda okkar glæsilega frjálsíþróttafólki sem í gær, í viðtali á Stöð 2, kallaði beinlínis eftir því að fá að komast inn til að æfa. Til dæmis er í frjálsíþróttaaðstöðunni í Laugardal ekkert vandamál að viðhafa 2 m reglu. Það jaðrar við að hægt væri að útfæra 100 m reglu á milli æfingarfélaga þegar þannig er ástatt. Það er því verið að ganga allt of hart fram gagnvart afreksíþróttafólki. Við verðum að stíga skref til baka. Ég átti ágætissamræður við hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag um þetta. Auðvitað er staðan sú að hæstv. heilbrigðisráðherra gæti strax á morgun gefið út línu hvað það varðar að laga þessa stöðu afreksíþróttafólks. Afstaða hæstv. ráðherra trompar einfaldlega afstöðu sóttvarnalæknis í þessum efnum. Það er ekkert sem bendir til þess að einhver breyting sé að verða á málum núna sem hefur ekki verið um alllangt skeið hvað það varðar að afreksíþróttafólk eigi að geta stundað sína íþrótt.

Að öðru leyti óska ég hv. velferðarnefnd velfarnaðar við vinnslu málsins um leið og ég vil gagnrýna að tekið hafi heila tíu mánuði fyrir ríkisstjórnina að átta sig á að aðrar lausnir hafa ekki virkað bærilega fyrir íþróttahreyfinguna. Ég vil fá að skilja eftir þessar tvær spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem snúa annars vegar að því hvers vegna verið sé að ýta hreyfingunni með ákveðnum hætti til að notast við form launamensku en ekki verktaka. Eins og ég segi óska ég hv. velferðarnefnd góðs gengis hvað vinnslu þessa máls varðar.