151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:54]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa skapast um þetta mál og fagna þeirri jákvæðni sem er gagnvart íþróttastarfi í landinu og umræðum um með hvaða hætti hægt sé að grípa betur utan um það, enda ekki skrýtið vegna þess að í íþróttastarfinu í landinu eru yfir 100.000 virkir iðkendur sem stunda íþróttir með einum eða öðrum hætti. Við þessa atvinnugrein starfar starfsfólk í 14.000 stöðugildum og 55.000 sjálfboðaliðar sinna hreyfingunni. Það er jákvætt og þess vegna er mikilvægt að við komum hér inn með frumvarp sem tekur utan um einn erfiðasta tímann, en engar íþróttir hafa verið stundaðar, eða mjög lítið, frá byrjun októbermánaðar.

Ég vil byrja á því að segja áður en ég kem inn á einstök atriði, að ríkisstjórnin hefur brugðist við. Við komum hér með 500 millj. kr. í sérstaka tekjufallsstyrki sem hv. þingmaður sem nú situr í forsetastól, Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, gekk frá og mælti fyrir í einum af fjölmörgum fjáraukum. Því fjármagni var úthlutað af íþróttahreyfingunni sjálfri, þar var gerð tillaga um úthlutunarreglur og ráðherra staðfesti þær síðan. Mikilvægt er að þetta frumvarp sé skoðað í því ljósi að það er eitt púsl í þeirri mynd sem við komum með núna gagnvart íþróttunum. Menntamálaráðherra mun óska eftir því við þingið að fá samþykkta heimild til þess að auka það fjármagn sem úthlutað verður í gegnum þessa tekjufallsstyrki og það kemur væntanlega til afgreiðslu í gegnum fjárlög og vonandi verður það samþykkt. Við værum þá að hugsa það út frá því að hinir styrkirnir voru hugsaðir til 1. júní. Síðan værum við að hugsa um tímabilið frá 1. júní til 1. október í áframhaldandi tekjufallsstyrkjum. Þegar kemur að tímanum eftir 1. október þar sem verið hefur miklu minna íþróttastarf í landinu en var í sumar — því að það er alveg rétt að íþróttirnar voru stundaðar í sumar en engu að síður var áhorfendabann og skertar tekjur og ekki hægt að halda samkomur o.s.frv. — var það niðurstaðan eftir samtal við íþróttahreyfinguna að skynsamlegt væri að koma með rekstrarstuðning og grípa utan um launagreiðslur og verktakagreiðslur félaganna. Þess vegna var það gert með þessum hætti.

Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvers vegna verktakagreiðslurnar eru ekki inni í frumvarpinu núna, hver rökin voru fyrir því og hvaðan þær breytingar komu. Það er aftur á móti þingsins að skoða niðurstöðuna og lendinguna í því, hvort það sé skynsamlegt að gera breytingar hvað það snertir. Við tökum hins vegar frá fjármagn sem verður líka beðið um í þinginu, til að mæta verktakagreiðslum sem er u.þ.b. sama fjárhæð og gert er ráð fyrir að þetta frumvarp kosti. Það er svo þingsins að taka endanlega afstöðu. Fjármálaráðuneytið taldi skynsamlegra að verktakagreiðslurnar væru vistaðar í einhvers konar styrktarformskerfi eins og tekjufallsstyrkirnir voru í sumar. Af því að menn velta fyrir sér gagnsæinu á slíkri úthlutun þá reikna ég með því að það verði eitt af því sem menntamálaráðherra mun útlista þegar þingið ákveður að veita henni heimild til að setja fé til þess verkefnis. Væntanlega verður það byggt á einhverjum sambærilegum grunni og gert var í sumar í samstarfi við íþróttahreyfinguna.

Ég tek undir þær umræður sem hér hafa verið um að við þurfum að huga að því hvernig við getum tekið á þeirri hættu að draga fari úr iðkendafjölda þegar við förum aftur af stað. Með þeim aðgerðum sem við höfum ráðist í og þeim aðgerðum sem menntamálaráðherra mun ráðast í samhliða þessu frumvarpi, auk síðan 600 milljóna, og væntanlega 300 milljóna á næsta ári sem ætlaðar eru til að styðja við tekjulág heimili sérstaklega umfram aðra frístundastyrki til þess að börnin geti tekið þátt í íþrótta- og tómstundastarfi — tæpur milljarður fer í það þá — eigum við að geta gripið mjög myndarlega utan um íþróttalífið vegna þess að í heild nema þessar aðgerðir yfir 3 milljörðum kr. Það miðast við að íþróttalíf fari hér af nokkuð miklum krafti af stað inn í næsta ár. Komi ekki til þess þá erum við með frumvarp sem á, ef þingið samþykkir það, að geta haldið utan um íþróttalífið til 30. júní á næsta ári. Þá kann að vera að fjárveitingar breytist í því, rétt eins og þegar við fórum af stað með fyrstu tillögur um hlutabótaleið. Síðan var hún framlengd og gerðar breytingar og það er bara eðli þeirra aðgerða sem við erum að ráðast í á þeim tímum sem eru í dag í íslensku samfélagi.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á þriðja geirann og fagnaði frumvarpi fjármálaráðherra hvað það snerti sem byggðist að verulegu leyti á tillögum starfshóps sem hv. þm. Willum Þór Þórsson fór fyrir. Ég held að það sé gríðarlega gott frumvarp. Þar stígum við mikilvæg skref og íþróttalífið er auðvitað hluti af því. Menn hafa velt fyrir sér, þar á meðal hv. þm. Bergþór Ólason, öðrum úrræðum sem ekki hafa nýst íþróttahreyfingunni sem skyldi. Það er þess vegna sem við komum nú með sérstakt úrræði til að grípa íþróttahreyfinguna. Það er vegna þess að þetta er gríðarlega stór vinnustaður. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir börnin okkar og samfélagið og hefur að einhverju leyti fallið á milli skips og bryggju. Þess vegna komum við með þessar sértæku aðgerðir hvað það snertir. Með því að koma með frumvarp sem gildir til 30. júní næstkomandi sköpum við íþróttalífinu fyrirsjáanleika, vonandi þar til við verðum búin að bólusetja það marga að hægt verður að slaka algerlega á öllum sóttvörnum. Það er kosturinn. Og þá fáum við umræðu hér í þingsal. Þá veltum við því fyrir okkur hvaða breytingar er hægt að gera, sem er mjög jákvætt og umræðan hefur verið mjög góð. En þegar allt kemur til alls veit íþróttahreyfingin að ef þetta dregst á langinn mun öryggisnetið grípa hana vegna þess að það er, eins og réttilega hefur verið komið inn á hérna, munur á aðgerðum fyrir íþróttalíf sem rekið er af sjálfboðaliðum, aðgerðum fyrir þá sem eru hér í salnum eða aðgerðum fyrir alla aðra úti í samfélaginu, og aðgerðum fyrir fyrirtæki sem eru í einkaeigu. Ég held að ég hafi svarað því sem fram kom um verktökuna. Það er spurning sem eðlilegt er að þingið spyrji sig og velti fyrir sér. Ég hef farið yfir það hér hvaða rök bjuggu að baki því og hef heitið nefndinni samstarfi hvað það snertir.

Síðan hefur því verið velt upp hérna á hvaða grunni frumvarpið er byggt. Það er í rauninni byggt á grunni sóttkvíarlaganna vegna þess að það sem virkjar greiðsluskylduna í frumvarpinu, eins og fram kemur í 5. gr., er að sóttvarnaaðgerðir séu í gildi, sóttvarnaaðgerðir stöðvi íþróttalífið með einhverjum hætti. Þetta eru frjáls félagasamtök, þetta eru sjálfboðaliðasamtök, þetta eru ekki fyrirtæki á markaði. Það getur líka verið svo að sveitarfélag hafi látið grípa inn í á grundvelli sóttvarnaaðgerða, að Íþróttasamband Íslands eða íþróttahreyfingin sjálf hafi gripið inn í, að á grundvelli sóttvarnaaðgerða hafi ekki verið hægt að keppa, að einstaka sérsambönd, fótboltinn, körfuboltinn, handboltinn, blakið, við getum haldið áfram að telja, hafi gripið inn í á grundvelli sóttvarnaaðgerða og það virkjar þá greiðsluskyldu frumvarpsins þannig að við erum sannarlega að víkka það út. Ég er algjörlega ósammála þeim sem hafa áhyggjur af því hér í þingsal að þetta verði hvati fyrir íþróttafélög til að leggja niður starfsemi vegna þess að það er ekki andi íþróttanna. Íþróttamenn, íþróttahreyfingin, sjálfboðaliðar í íþróttahreyfingunni, sérsambönd, Íþróttasamband Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands eru ekki að leika sér að því að hætta að spila íþróttir eða hætta að hafa æfingar eða keppni. Allir eru nauðbeygðir til þess og vilja komast aftur í keppni. Allir vilja geta farið að sinna þessu á nýjan leik.

Mér finnst umræðan hafa verið gríðarlega góð hérna. Bent hefur verið á góð atriði hér sem nefndin þarf sannarlega að skoða og ég er sannfærður um að hún gerir það og ég heiti góðu samstarfi við hana. En munum að það er gríðarlega mikilvægt að íþróttahreyfingin, æskulýðsstarfið og allt sem heyrir undir þessa sjálfboðaliðastarfsemi sem grípur börnin okkar komi sem sterkast út úr Covid-19 faraldrinum.