151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[18:11]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að vinna að þessum tillögum í samstarfi við íþróttahreyfinguna síðastliðinn mánuð. Eðli máls samkvæmt kom fjárlagafrumvarp fram fyrir þann tíma. Eðli máls samkvæmt, þegar fjárlagafrumvarp kom fram, gerðum við ráð fyrir því að íþróttalífið í landinu gæti verið með eðlilegum hætti hér á haustdögum. Það hefur ekki verið það frá 1. október. Þess vegna erum við komin með þetta frumvarp. Eðli máls samkvæmt, eftir 1. umr. fjárlaga, er þetta frumvarp ekki inni í fjárlagafrumvarpi eins og það var lagt fram, ekki frekar en það sem lýtur að verktakagreiðslum eða tekjufallsgreiðslum sem ætti að vera fyrir 1. október, sem hæstv. menntamálaráðherra mun væntanlega greiða með sambærilegum hætti og gert var í sumar með 500 millj. kr. sem samþykktar voru í þinginu. Eðli máls samkvæmt byggir þetta frumvarp, byggja þær aðgerðir sem menntamálaráðherra er með, á því að þingið muni samþykkja fjárveitingar til þess. En ég þykist vita að á grunni þessara laga og á grunni tillagna menntamálaráðherra verði það lagt fyrir þingið og vonandi munum við báðir, ég og hv. þingmaður, samþykkja þær aðgerðir, það fjármagn, þannig að við getum í sameiningu gripið utan um íþróttalífið og skapað því þann stuðning sem það þarf á að halda á þessum erfiðu tímum.