151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Jú, að mörgu leyti get ég tekið undir það með hv. þingmanni að það er ástæða til að ganga lengra til að mæta þeim áhrifum sem landbúnaðurinn hefur orðið fyrir líkt og margar aðrar atvinnugreinar í því ástandi sem hefur skapast undanfarið, sérstaklega á þessu ári. Ég er ekki á þeirri skoðun að það eigi að fresta útboðum, samningsbundnum skyldum Íslands eins og gagnvart Evrópusambandinu. Við eigum að standa við þær skyldur. Það hefur t.d. átt sér stað mikil umræða um möguleikana á því að eiga viðræður við Evrópusambandið um þann tollasamning sem umdeildur er og ég teldi afar hæpið af hálfu Íslands að hefja þær viðræður undir þeim formerkjum að við værum búin að rjúfa samningsbundnar skyldur okkar. Ég hef verið að vinna að því að reyna að mæta þessu áföllum með öðrum hætti en þeim og reyna að kappkosta að við stöndum við þá samninga sem við gerum þar til þeim er sagt upp eða þeir renna út.

Ég þekki til umræðunnar um meðferð tollkvóta í Noregi og Evrópusambandinu. Sumt af því sem þar er sagt er að sumu leyti slitið úr sambandi. Engu að síður er alveg ljóst að nágrannaríki okkar, mörg hver, hvort tveggja Noregur og síðan innan Evrópusambandsins, hafa gripið til aðgerða til stuðnings landbúnaðinum og við eigum að sjálfsögðu að vinna í því með svipuðum hætti og þar er gert. Það eru leiðir færar og við erum að skoða þær og ég vænti þess að geta kynnt þær innan tíðar og með hvaða hætti við hyggjumst koma til móts við landbúnaðinn á þeim erfiða tíma sem hann er að glíma við.