151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:32]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og útskýringarnar. En ég vil hvetja til þess að sú þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar kynni sér vel hvernig staðið er að frestun á nýtingu tollkvóta annars staðar þannig að það liggi allt fyrir við afgreiðslu málsins. Ég fagna því mjög að það skuli vera til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að styðja og styrkja landbúnaðinn á þessum tímum. Ég vil kannski koma inn á og taka undir að það er mikilvægt að endurskoða tollasamninginn við Evrópusambandið vegna forsendubrests í kjölfar Brexit. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki rétt skilið að við það að gerður hafi verið bráðabirgðafríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands sé í rauninni búið að semja um allan þann útflutning sem átt hefur sér stað innan þessa samnings Evrópusambandsins, hann hefur fyrst og fremst farið til Bretlands, og í rauninni sé ekkert eftir til þess að semja um við Evrópusambandið?