151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:35]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans um þetta frumvarp og að einhverju leyti fyrir að bregðast við því ástandi í sambandi við uppsöfnun á kjötbirgðum, bæði hjá sláturleyfishöfum og eins hjá bændum með kjöt á fæti. Ef ekkert er gert mun það leiða til hruns á kjötverði til framleiðenda. Staðan er mjög alvarleg.

Ég var í raun og veru með sömu spurningu og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir til hæstv. ráðherra. Ráðherrann svaraði því að erfitt væri að stíga það skref að fresta fyrirhuguðu útboði á tollkvótum algerlega til að standa að einhverju leyti við samninga við ESB. En það kom líka fram í máli ráðherrans að verið væri að skoða enn frekari leiðir. Þá langar mig að spyrja: Hvaða leið sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hægt sé að fara? Og í sambandi við þetta skref sem er verið að taka núna, mun það einhverju breyta í sambandi við þá stöðu sem uppi er með birgðir af kjöti? Mun það einhverju breyta fljótlega?