151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekkert um að hv. þingmaður muni fylgjast vel með því hvað gerist í þessu. Það er gott að vita til þess. Þegar spurt er hvað geti falist í því fyrir okkur ef við frestum fyrirhuguðu útboði þá er það bara svo einfalt að við sömdum um aðgang að markaði fyrir framleiðslu okkar í Evrópu, um aðgengi íslenskrar framleiðslu inn á þennan 500 milljóna manna markað. Við sömdum um það að á móti þeim fríðindum væri samningsaðilanum heimilt að flytja inn til landsins ákveðin gæði sín megin frá. Það er það sem ég er að tala um að við eigum að standa við. Ef við klippum á það okkar megin án viðræðna og samkomulags erum við að setja aðra hagsmuni okkar í hættu. Og það er mikið undir í þeim efnum.