151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég vil byrja á því sem hv. þingmaður endaði á, hvort það sé ekki galli í samningnum að geta ekki einhvern veginn brugðist við svona aðstæðum. Það má með sanni segja að það gæti verið gott að hafa inni í samningnum eitthvert slíkt ákvæði sem tæki á óskilgreindum aðstæðum sem gætu komið upp. En ég held að það sé erfitt að skrifa slíkt inn í milliríkjasamning á annan veg en þann að samningsaðilar taki upp viðræður ef og þegar eitthvað kunni að gerast. Það höfum við verið að undirbyggja og erum m.a. í þeirri vinnu sem ég hef áður nefnt á vegum utanríkisráðuneytisins og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins að leggja mat á þá hagsmuni sem undir liggja í þeim samningi sem mörgum þykir í dag afar óhagstæður.

Ég þreytist ekki á að minna á það að í þessum samningum eru fleiri hagsmunir undir, og þá er ég að meina fyrir þjóðarheildina. Við getum ekki rætt einn lítinn hluta þessa samnings, þó að okkur þyki landbúnaðurinn mjög stórt atriði í þjóðarbúskapnum. Við verðum að hafa heildarmyndina undir þegar við ræðum mögulega uppsögn eða breytingar á samningnum. Ég nefndi fyrr í andsvari þætti á sviði landbúnaðarmála sem njóta tollfríðinda samkvæmt samningnum á erlendum mörkuðum. Hrossaræktin á Íslandi er t.d. með tollfrelsi samkvæmt þessum samningi. Það myndi breyta miklu fyrir hana ef við segðum samningnum einhliða upp og fengjum þá einhverja súpu yfir okkur, ef því væri að skipta. (Forseti hringir.) Ég er ekki að segja að þetta sé að gerast en þetta eru þau atriði sem leggja þarf mat á þegar við ræðum viðbrögðin.