151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Afstaða Samfylkingarinnar hefur komið hér fram, hún er á móti þessu frumvarpi og kemur kannski ekki á óvart. Þar sem landbúnaðurinn er annars vegar hefur Samfylkingin verið þeirrar skoðunar að affarasælast sé að sem mest sé flutt inn af landbúnaðarvörum. En það er nú einu sinni þannig, hv. þingmaður, að tollvernd er óaðskiljanlegur hluti af starfsumhverfi landbúnaðarins í heild sinni og öll ríki verja sinn landbúnað með tollvernd. Það gerir Evrópusambandið einnig. Það má kannski segja að það sé að mörgu leyti slyngt í samningum vegna þess að í tollasamningnum, sem var gerður hér 2015 og tók gildi 2018, hallar á íslenska bændur og að mörgu leyti er þetta góður samningur fyrir Evrópusambandið. Þeir vernda sinn landbúnað vel og eru í góðu samráði við bændur þegar þeir semja. Það er eitthvað sem við mættum horfa til vegna þess að samráð hefur skort við hagsmunaaðila að mínum dómi þegar samningar af þessu tagi hafa verið gerðir.

Hv. þingmaður nefndi það sérstaklega að vöruverð á landbúnaðarvörum myndi hækka verði þetta frumvarp að lögum, sem að mínum dómi gengur reyndar ekki nógu langt. Mig langar til að hv. þingmaður skýri það nánar út fyrir okkur vegna þess að það liggur ekki fyrir að neytendur hafi notið góðs af þessum tollasamningum í formi lægra vöruverðs. Það er nú einu sinni þannig, hv. þingmaður.