151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og það gleður mig að hann talaði tiltölulega hlýtt til landbúnaðarins. En það er nauðsynlegt að átta sig á því að nú er landbúnaðurinn í alvarlegum vanda og við erum að horfa upp á mjög mikla birgðasöfnun í landinu. Þetta eru aðstæður sem við höfum aldrei lent í áður og við þekkjum það í fleiri atvinnugreinum eins og margoft hefur komið fram hér. Þess vegna verðum við að mæta landbúnaðinum með einhverjum hætti. Þegar birgðasöfnun er orðin svo mikil að bændur geta ekki selt sína vöru er greinin í alvarlegum vanda. Á sama tíma er verið að flytja inn landbúnaðarvörur. Það sjá allir að það endar bara á einn veg, þessir innlendu framleiðendur geta ekki selt sína vöru og geta það eiginlega ekki nú þegar vegna ástandsins, og þá endar það náttúrlega með gjaldþroti í greininni. Það er eitthvað sem við viljum ekki sjá vegna þess að við eigum að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu. Það eru margvísleg rök fyrir því og ekki síst bara þjóðaröryggis vegna.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann fyrir sér að mæta bændum ef hann er á móti þessu frumvarpi? Það er alveg ljóst að það verður að gera eitthvað, hv. þingmaður. Þá væri gott að hann útlistaði það bara hér og nú með hvaða hætti hann sér fyrir sér að mæta vanda landbúnaðarins því að ekki vill hann styðja þetta frumvarp, sem gengur reyndar ekki nægilega langt. Hann hlýtur að hafa einhverjar lausnir í þeim efnum vegna þess að ekki viljum við sjá hér fjöldagjaldþrot eins og ég nefndi.