151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, við viljum ekki sjá fjöldagjaldþrot í þessari grein frekar en í öðrum atvinnugreinum eða hjá heimilum landsins. Þekkti hv. þingmaður mig betur þá vissi hann að ég er alinn upp í landbúnaðar- og matvælaframleiðsluhéraði og þekki auðvitað mikilvægi landbúnaðarins og mér hefur alltaf verið hlýtt til hans. Ég hef líka séð frá því að ég ólst upp og fram á þennan dag hvernig vöruþróun hefur batnað, vöruúrval hefur aukist, hollustan hefur lagast. Allt þetta held ég að haldist í hendur við það að við höfum opnað okkur gagnvart umheiminum. Við erum náttúrlega með ótrúlega framleiðslustýringu á okkar landbúnaðarframleiðslu og við framleiðum kannski ekki endilega í takt við það sem markaðurinn vill hverju sinni. Við höfum stundum setið uppi með of mikið af vörum og þurfum þá að koma framleiðslunni einhvern veginn frá okkur og borga með henni. Það er ekki skynsamlegt, hvorki út frá almennum rekstri né heldur þegar við stöndum frammi fyrir vanda sem snýr að loftslagsmálum. Ég myndi miklu frekar vilja styrkja landbúnaðinn með því að greiða styrki til búsetu, beina framleiðslunni í grænni átt frekar en að gera það á hvert kíló.

Hér kallar hv. þingmaður eftir því að ég leysi vanda landbúnaðarins með konkretlausnum. Það get ég ekki. Hins vegar hef ég sagt það og sagði það í ræðu minni að ég teldi að eðlilegra væri að gera það með beinum styrkjum og beinni aðkomu ef þeir sem hafa almennt dugað fyrir atvinnurekstur í landinu eru ekki nægir. Þá vísa ég aftur til orða hv. þingmanns í andsvörum áðan þegar hann talaði um ágætar leiðir Evrópusambandsins í þeim efnum.