151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki gott frumvarp. Ég held að óhætt sé að segja það fullum fetum strax í upphafi. Vissulega er það svo að íslenskur landbúnaður og matvælaframleiðsla á í miklum vanda líkt og stór hluti af íslensku atvinnulífi. En það á ekki að styðja við íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu með aukinni vernd og hindrunum í viðskiptum. Það er röng leið. Það er alltaf röng leið og hún er líka röng á tímum Covid. Greið viðskipti hljóta alltaf að eiga að vera grundvallaratriðið. Samkeppni er góð fyrir bændur og matvælaframleiðendur eins og alla aðra. Þessi aðferð er til þess fallin að hindra innflutning sem er þó í sjálfu sér ekki mjög mikill ef litið er til innlendrar framleiðslu. Það má draga mjög í efa að það að draga úr þessum innflutningi muni skipta nokkru einasta máli fyrir bændur eða íslenska matvælaframleiðendur. Með sömu rökum mætti e.t.v. varpa fram hugmynd í þessum anda um hvort ekki væri rétt að setja innflutningstakmarkanir á áfengi til að vernda íslenska framleiðendur. Það hefur jú verið drukkið miklu minna áfengi í landinu eftir að allir ferðamennirnir fóru. Er það rétt aðferð? Nei, það myndi ekki nokkrum lifandi manni detta slík firra í hug. Það er nú þannig.

Þetta mál varpar ljósi á það að íslenskt landbúnaðarkerfi þarfnast algerrar uppstokkunar. Ég ætla svo sem ekki að ræða það hér en það er alveg augljóst að áherslan á framleiðsluna er enn allt of mikil. Við erum einfaldlega að framleiða of mikið, sérstaklega af kjöti. Það er staðreynd máls sem ekki er hægt að líta fram hjá. Þess vegna þarf að breyta kerfinu þannig að bændur og búalið geti haft viðurværi með öðrum hætti. Að sjálfsögðu mun kjötframleiðsla aldrei leggjast hér af, ég er alls ekkert að tala um það. En hún er of mikil. Það er of mikil áhersla á framleiðslu kjöts. Auðvitað blasir við að landbúnaðurinn og íslenskir matvælaframleiðendur eiga við mikinn vanda að etja eins og svo margar aðrar greinar. Til að koma á móts við þann vanda á að beita svipuðum eða sömu meðulum og beitt er fyrir aðrar atvinnugreinar í sama vanda. Lausnin er ekki sú að loka, draga úr samkeppni. Það getur ekki verið lausnin.

Þetta er auðvitað mikið vandræðamál. Það hlýtur að vera sérlega vandræðalegt fyrir þá sem tala mikið um frjálsa samkeppni og frjálsa verslun að beita sér fyrir frumvarpi af þessu tagi. En ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð. Þetta eru meginsjónarmið sem skipta miklu máli í þessu samhengi. Við eigum að aðstoða bændur, við eigum að aðstoða landbúnaðinn, við eigum að aðstoða matvælaframleiðendur. En við eigum ekki að gera það með þessum hætti, alls ekki. Viðreisn mun ekki geta staðið fyrir stuðningi við þetta frumvarp. Það er bara fjarri lagi.