151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

fátækt.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég get verið ósköp sammála henni um fjölmiðla, að þá þurfi að styrkja, en að setja þá á beina ríkisstyrki og gera þá háða ríkinu er ekki rétta leiðin. Það á ekki að dæla peningum frá ríkinu í fyrirtæki úti í bæ. Það stenst bara ekki. En til fólksins? Það væri nær að sjá til þess að fólk hefði í sig og á. Hvað á að segja við eldri borgara sem hafa ekki fengið krónu, sem geta ekki gefið börnunum sínum gjöf, geta ekki einu sinni komist í matvöruverslun til að ná í mat? Þarna úti er stór hópur sem fær ekki neitt. Á sama tíma erum við að fara að dæla hálfum milljarði í einkafyrirtæki. Ég get ekki verið sammála þessu. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að vera sammála mér um að við eigum að hafa það þannig að fólkið sé fyrst og síðan komi allt hitt.