151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

málefni SÁÁ.

[15:22]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og það gleður mig að heyra að samtal sé í gangi, orð eru jú til alls fyrst. Ég vil líka minna ráðherrann á þingsályktunartillögu sem undirritaður lagði fram hér og þar kemur fram í greinargerð að 1997 var brugðist við vaxandi biðlista með áætlunargerð og þar náðist að stytta biðlista alveg niður í nánast núll árið 2000. Síðan hefur þetta gengið til baka þannig að svona vinna er nauðsynleg til að ná árangri. Það er rétt hjá ráðherra að þetta hefur þróast mikið og göngudeildin hefur sýnt árangur sinn. Það var líka gleðilegt að sjá í sumar að sálfræðimeðferð fyrir börn frá heimilum þar sem alkóhólismi er ríkjandi gagnast þeim mikið og er mjög ríkt og gott forvarnastarf þannig að ég hvet ráðherrann bara áfram til góðra verka og vona að við getum unnið saman að þessu máli.