151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi. Ég vil byrja á því, herra forseti, að þakka nefndinni sérstaklega fyrir gott samtal um þetta mikilvæga mál og góða samvinnu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörpu Pétursdóttur, Önnu Lilju Oddsdóttur og Jón Ásgeir Haukdal frá Orkustofnun og Gísla Rúnar Gíslason og Eirík Baldursson frá Umhverfisstofnun. Nefndinni bárust umsagnir frá Landvernd, Náttúrufræðistofnun Háskóla Íslands, Orkustofnun og Umhverfisstofnun.

Með tillögunni er lagt til að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna áætlun um takmörkun á notkun pálmaolíu í allri framleiðslu á Íslandi og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil. Þá er lagt til að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður sínar og leggi fram frumvarp til laga um bann við notkun pálmaolíu í lífdísil eigi síðar en í lok árs 2021.

Í umsögnum og máli þeirra gesta sem komu fyrir nefndina var almennt lýst stuðningi við markmið tillögunnar.

Sams konar mál var áður til meðferðar í atvinnuveganefnd á 150. löggjafarþingi (120. mál). Í vinnslu þess máls síðasta vor komu til fundar við nefndina Tryggvi Felixson frá Landvernd, Trausti Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Jón Bernódusson frá Samgöngustofu og Guðmundur Haukur Sigurðarson frá Vistorku. Í ljósi þess hversu skammt var liðið frá því að nefndin fékk gesti á fund sinn var ekki talin ástæða til að endurtaka þær gestakomur.

Í umsögnum og máli gesta sem þá komu fyrir nefndina komu fram þau sjónarmið að vegna umhverfisáhrifa pálmaolíu ætti að vera forgangsatriði að draga úr notkun hennar. Í raun væri ekki þörf á að flytja inn pálmaolíu til að setja í lífdísil þar sem hér væri unnt að framleiða nægan lífdísil, m.a. úr úrgangi og með ræktun repjuolíu.

Herra forseti. Meira en helmingur innfluttrar pálmaolíu er nýttur til framleiðslu á lífdísli samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Í samræmi við það sem kom fram hér áðan vill nefndin árétta að tækifæri er til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti á Íslandi og að það verði liður í því að skipta út jarðefnaeldsneyti. Nefndin álítur að með þessari tillögu sé hvatt til frekari framleiðslu og nýtingar á innlendum lífdísli og styður málið þannig einnig við framleiðslu og nýsköpun í íslenskum landbúnaði og jafnvel til töluverðs að vinna.

Nefndinni var bent á að á árinu 2021 tekur gildi ný tilskipun um endurnýjanlegt eldsneyti innan Evrópusambandsins (ESB) 2018/2001 (RED II) sem tekur við af tilskipun 2009/28/EB (RED I). Hertar verði þær kröfur sem gerðar eru til endurnýjanlegs eldsneytis sem unnið er úr fóðurplöntum og stefnt að því að draga markvisst úr notkun slíks eldsneytis fram til ársins 2030. Þá væri m.a. gert ráð fyrir að dregið yrði úr notkun pálmaolíu frá árinu 2023 uns notkun hennar verði hætt árið 2030. Samkvæmt tilskipuninni skulu ríki ESB hafa lokið við að lögleiða hana fyrir 30. júní 2021. Tilskipunin er til skoðunar hjá EES/EFTA-ríkjunum en ekki liggur fyrir hvenær hún verður tekin upp í EES-samninginn. Því er óljóst hvenær hún verður innleidd á Íslandi. Nefndin bendir á að önnur lönd hafa stigið stór skref í þessa sömu átt. Norðmenn urðu fyrstir til þess að banna pálmaolíu í lífdísli en bannið hefur skilað umtalsverðum árangri frá því að norska ríkið samþykkti árið 2017 að breyta stefnu um opinber innkaup í þá átt. Því er ljóst að þróunin miðar í þá átt að draga úr notkun á pálmaolíu eða leggja hana af.

Fyrir nefndinni kom fram að ekkert er því til fyrirstöðu að íslensk stjórnvöld bregðist við án tafar og hefji vinnu sem miðar að því að hætta notkun pálmaolíu. Ísland væri þá að sama skapi betur í stakk búið til að innleiða gerðina hratt og örugglega þegar hún verður tekin upp í EES-samninginn. Nefndinni var bent á að mikilvægt væri að við ákvörðun um tímamörk væri þess gætt að veita hagsmunaaðilum á við eldsneytisbirgja færi á að undirbúa sig og aðlaga að þeim takmörkunum sem slíkar breytingar hefðu í för með sér. Pálmaolía væri m.a. eitt þeirra hráefna sem notað er í eldsneyti til að draga úr notkun gróðurhúsalofttegunda. Nefndin ítrekar með hliðsjón af framangreindu að mikilvægt er að ráðuneytið hafi samráð við hagaðila við vinnslu málsins. Nefndin telur ljóst að með samþykkt þingsályktunartillögunnar er hægt að byrja fyrr á því ferli sem mun fylgja innleiðingu RED II tilskipunarinnar og hefja vinnu sem miðar að því að hætta hér notkun pálmaolíu í lífdísil.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt og undir hana skrifa Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framsögumaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson og Sunna Rós Víðisdóttir.