151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrir andsvarið. Þetta er mjög áhugaverð pæling en hv. þingmaður er svolítið að bera saman epli og appelsínur í þessu máli. Það að pálmaolían sé slæm, og þar af leiðandi lítið sem má nota af henni, dregur það ekki úr mikilvægi þess að draga úr mengun jarðefnaeldsneytis. Það dregur ekki úr þörfinni fyrir að vera með íblöndun í jarðefnaeldsneyti meðan við erum enn þá háð því.

Þar af leiðandi kom það ekki til tals. Eins og nefndin bendir líka á í nefndaráliti sínu, eins og kom fram í umsögnum og eins og kemur fram líka í RED II tilskipun Evrópusambandsins eru til aðrar leiðir en að nota pálmaolíu sem íblöndunarefni í lífdísil, til að mynda, eins og hv. þingmaður taldi upp sjálf, repjuolía, úrgangsolía o.fl. Þar af leiðandi hlýt ég einfaldlega að svara spurningunni neitandi. Við verðum að draga úr mengun jarðefnaeldsneytis. Þetta er ein leiðin til að gera það. Því miður er langt frá því að pálmaolían hafi verið gott val. Ástæðan fyrir því að hún var valin til að byrja með er líklega sú að hún er náttúrlega ódýr. Hún er tiltölulega ódýr í framleiðslu og hún er þægileg. Þetta er góð olía, það neitar því enginn. En ég held að á þeim tíma sem þessi leið var farin hafi enginn endilega séð fyrir sér hversu mikil eftirspurnin eftir olíunni yrði og krafan um aukna ræktun. En það er sannarlega verið að reyna að vinda ofan af því núna. Þetta er, held ég, mjög mikilvægt skref í áttina að því.