151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:13]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum, held ég, öll sammála um að æskilegt sé að draga úr neikvæðum áhrifum notkunar jarðefnaeldsneytis. Það er full ástæða til að leita allra leiða til að draga úr mengun vegna jarðefnaeldsneytis. En um það snýst ekki andsvar mitt hér heldur um þá staðreynd að það kemur sérstaklega fram í þeirri hryllingslesningu sem þessi þingsályktunartillaga er að reiknað hafi verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíum, sem er um 70% af lífeldsneytismarkaði, losi 80% meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið, 80% meira. Og markmiðið fyrir sjö árum þegar vinstri flokkarnir settu í lög skyldu til íblöndunar á lífefnaeldsneyti í eldsneyti var að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hér stendur, og ég tek alveg undir það því að þetta er alveg þekkt stærð, að 70% af lífeldsneyti frá jurtum losi 80% meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið.

Og af því að hv. þingmaður nefndi hér repjuna og annað þá leiði ég hugann að næstu spurningu: Hafa hv. þingmenn t.d. eitthvað leitt hugann að eða fjallað um mögulegar óvæntar, óæskilegar, neikvæðar afleiðingar þessarar kvaðar um íblöndun á jarðefnaeldsneyti í eldsneyti, m.a. með repju? Hvað fer mikið landflæmi undir ræktun á slíku? Eða maís, hvað er verið að taka maís frá mörgu hungruðu fólki úti um allan heim þegar gerð er skylda um að blanda eldsneyti með matjurtum af þessum toga? Þetta eru dæmi um óvæntar, neikvæðar afleiðingar af góðri hugsun, mögulega. Þessar hugmyndir og þessar afleiðingar (Forseti hringir.) voru vel þekktar fyrir sjö árum þegar vinstri ríkisstjórnin setti þessa íblöndunarskyldu á.