151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að heyra að við hv. þingmaður erum líklega sammála. Við þurfum bara að sleppa jarðefnaeldsneytinu og fara í rafvæðingu bíla eða metangas af því að hvort tveggja er náttúrlega slæmt eins og hv. þingmaður bendir á. Aukin ræktun vegna pálmaolíu er náttúrlega að mörgu leyti slæm eins og hefur komið í ljós. En brennslan á henni veldur því að brennslan á jarðefnaeldsneytinu verður hreinni. Sá hlutur hefur ekkert breyst. Hins vegar eru afleiðingarnar af ræktuninni óheppilegar og við berum kennsl á það. Þess vegna leggjum við líka til að henni verði hætt, að þessu verði breytt, og að við leggjum okkar af mörkum hér með það.

Jú, við ræddum repjuolíuna. Við fengum reyndar mjög áhugaverða kynningu á ræktun repjuolíu á Íslandi og hvernig hún er að fara að skila af sér miklu meiri afurðum en bara jurtaolíu til íblöndunar í lífdísil. Hún skilar líka fæðu fyrir t.d. kýr. Hún skilar því líka að það er t.d. verið að rækta hana fyrir austan og þar eru bara gríðarlega spennandi hlutir að gerast. Það eru gríðarleg tækifæri þarna fyrir nýsköpun í íslenskum landbúnaði. Það sem meira er er að þarna höfum við tækifæri til að framleiða okkar eigin eldsneyti sem hlýtur að vera mikilvægt markmið fyrir okkur Íslendinga.

En að því sögðu held ég að það sé mjög mikilvægt að við skiptum út jarðefnaeldsneytinu og þá þurfum við ekkert að vera að ræða þessi íblöndunarefni.