151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:17]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umfjöllunar er um margt mjög áhugaverð. Hún er í fyrsta lagi áhugaverð fyrir það að flutningsmenn hennar tilheyra stjórnmálaflokkum sem lögðu það til og fengu það samþykkt hér á Alþingi fyrir örfáum árum að sett yrðu lög sem skylduðu, og skylda enn þann dag í dag, eldsneytisframleiðendur til að blanda jarðefnaeldsneyti með því sem kallað hefur verið lífeldsneyti upp að ákveðnu marki, í ákveðnum hlutföllum, þ.e. að blanda þyrfti það endurnýjanlegu eldsneyti eins og það er kallað. Þetta endurnýjanlega eldsneyti, og það vissu menn þegar þeir settu þessi lög, er einkum unnið úr pálmum og matjurtum af ýmsu tagi. Repjuolía, sojaolía og maísolía hafa verið nefndar. Allt eru þetta matjurtir. Eftir að lögin tóku gildi 2013, ef ég man rétt, hefur þessi skylda legið fyrir og hún hefur leitt til töluverðs kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Fyrir utan þá skyldu sem var lögð á með þessum lögum, sem er bara beinn kostnaður, voru líka settar fram stórkostlegar skattaívilnanir til örvunar á innflutningi á þess háttar matareldsneyti, sem ég leyfi mér að kalla það. Það er í gegnum þá skattalegu örvun, skattaívilnanir, sem við blasir að ríkið hefur orðið af tekjum sem síðast þegar ég gáði námu 1 milljarði á ári í formi skattaívilnana vegna innflutnings á matareldsneyti. Ef ekki hefði komið til þessara skattaívilnana hefði bara verið flutt inn hefðbundið eldsneyti og greiddur af því skattur. Það liggur því fyrir að á ári hverju hefur runnið úr ríkissjóði 1 milljarður til erlendra framleiðenda á þessu matjurtaeldsneyti.

Þetta er aðeins um forsöguna, virðulegur forseti. Svo kemur þingsályktunartillagan sem ég held að sé lögð fram í a.m.k. annað sinn og hefur ekki náð fram að ganga. En nú er hún komin hér til síðari umræðu. Fyrir utan þetta form flutningsmannanna, hvaðan þeir koma og hvert þeir segjast vera að fara er efni hennar líka ákaflega áhugavert, ég leyfi mér bara að segja nánast hryllingslesning. Ég tek það fram að ég dreg ekki í efa staðreyndir í málinu. Ég held að þar sé farið satt og rétt með. Hér er dregið fram að það eru lönd eins og Indónesía og Malasía sem framleiða langmest af pálmaolíu og að þessi lönd hafi nú þegar, á örfáum árum, — auðvitað ekki bara vegna Íslands og íblöndunarskyldunnar hér heldur hafa fleiri ríki verið í þessum leikaraskap, ef ég má kalla það svo, að fara þá leið að kveða á um notkun lífeldsneytis — þessi lönd, Indónesía og Malasía, hafa nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum, einkum fyrir fjöldaframleiðslu á pálmaolíu sem er ódýrasta jurtaolían á markaði. Hún er ekki lengur eingöngu notuð til matargerðar eða til neyslu heldur hefur eftirspurnin aukist verulega undanfarna áratugi, m.a. til þess að sinna eldsneytisþörf mannkyns.

Það kemur líka fram í þingsályktunartillögunni að regnskógar eru gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur-Asíu, vaxa í kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga vegna þess að kolefni losnar út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er ræst fram. Þetta er umræða sem hefur sem betur fer verið sívaxandi hér á Íslandi, þ.e. um nauðsyn þess að endurheimta votlendi í þeim tilgangi að stöðva losun á gróðurhúsalofttegundum.

Þessi lýsing er auðvitað ekki fögur en það sem vakti kannski mesta athygli mína og áhuga er það að árið 2013, þegar sett voru lög um skyldu til íblöndunar í eldsneyti, var það sérstakt markmið að draga úr gróðurhúsalofttegundum. En í þessari þingsályktunartillögu kemur það fram að reiknað hafi verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70% af lífeldsneytismarkaðnum í Evrópu, losi 80% meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út. 80% meira. Pálmaolían trónir þar hæst og er þrisvar sinnum verri en jarðefnaeldsneyti. Næst á eftir kemur sojaolía sem er tvisvar sinnum verri, eins og því er lýst hér.

Ég árétta og minni aftur á að markmiðið árið 2013 var að draga úr gróðurhúsalofttegundum og sett var íblöndunarskylda. En eins og svo oft í þessum stóra málaflokki sem eru umhverfismál og loftslagsmál, þar sem menn vilja reyna að finna einhverja heildarlausn, eina lausn og reyna að skjóta niður vandamálið í einu vetfangi, þá sést því miður allt of mörgum allt of oft yfir þá staðreynd að svona aðgerðum fylgja oft óvæntar afleiðingar sem eru afar óæskilegar ef ekki beinlínis mjög neikvæðar og skaðlegar. Ég held að það megi með sanni segja að þetta sé dæmi um slíkt mál. Afleiðingarnar virðast a.m.k. vera óvæntar í hugum flutningsmanna þessarar tillögu. Þessi veruleiki kemur þeim bara mjög spánskt fyrir sjónir.

Ég er reyndar ekki viss um að menn hafi verið í tómu myrkri á sínum tíma þegar þeir settu lögin um skylduna til íblöndunar. Á það hefur mjög lengi verið bent, einkum og sér í lagi þegar verið var að hvetja til þess að nota maís í öðrum tilgangi en til manneldis, ég nefni sem dæmi maíspoka eða maís í eldsneyti, að ein af óvæntum og óæskilegum og skaðlegum afleiðingum þess, ein hrikaleg afleiðing þess, sé hækkandi heimsmarkaðsverð á þessum afurðum. Það bitnar auðvitað mest á því fólki sem síst skyldi þurfa að þola það, hungruðu fólki í vanþróuðum ríkjum sem reiða sig á þessar matjurtir til manneldis. Þetta hefur löngum verið bent á. Allt að einu hafa menn að mínu mati oft á tíðum farið fram úr sér í góðum tilgangi með gott markmið í huga. Við erum öll sammála um að við viljum og teljum æskilegt að draga úr mengun af völdum jarðefnaeldsneytis. En menn mega ekki missa sjónar á því að vistkerfið okkar er allt ein heild. Að ætla að færa eldsneytisnotkun úr jarðefni yfir í matjurtir þegar til staðar er hungursneyð víða um heim hlýtur að vekja upp einhver siðferðisleg álitaefni, a.m.k. umræðu, í löndum jafn ágætum og okkar.

Hv. þingmaður flutti hér framsögu um nefndarálit um þessa þingsályktunartillögu. Í andsvari mínu spurði ég: Af hverju létu menn staðar numið í því að stöðva notkun pálmaolíu? Menn nefna repjuna af því að hún er framleidd í einhverjum mæli á Íslandi, þó ekki í nokkrum nægilegum mæli til að hægt sé að jafna því á við innflutning á lífeldsneyti sem er nauðsynlegt fyrir samgöngutæki hér. Það er algerlega óraunhæft að fjalla um þessi mál með þeim hætti að hún komið í staðinn fyrir það. Þá var það nefnt hér að hægt væri að skipta yfir í þessa repjuolíu eða einhverja aðra. Ég beindi því til hv. þingmanns hvort ekki hefði verið eðlilegt að skoða málið betur og jafnvel bara að hugleiða það að afnema lögin um skyldu til að blanda lífeldsneyti í eldsneyti. Það kom fram í máli hennar að við værum sammála um að við vildum stefna að því að takmarka og draga úr neikvæðum afleiðingum jarðefnaeldsneytis. Það gerist og við erum í sérstaklega góðri aðstöðu til þess á Íslandi með alla okkar endurnýjanlegu orkugjafa, allt okkar rafmagn og rafbílavæðinguna sem er komin hér á fullan skrið. Ég tel að við eigum að nýta okkur það. Við eigum að einbeita okkur að því en ekki með þeim hætti sem við erum að gera, m.a. með milljarða útgjöldum úr ríkissjóði, milljarða niðurgreiðslu til erlendra framleiðenda á lífeldsneyti, með því að þráast við að vera með lög í gildi um skyldu til íblöndunar.

Við eigum að leyfa þessari þróun að eiga sér stað. Hún er fyrir löngu farin af stað og það þarf enginn að velkjast í vafa um að hún mun halda áfram, rafbílavæðingin og orkuskipti okkar úr jarðefnaeldsneyti yfir í okkar ágæta endurnýjanlega orkugjafa sem er rafmagnið og sem við höfum nóg af hér. Þessi þróun mun auðvitað eiga sér stað hér á Íslandi og við eigum að leyfa henni að eiga sér stað, leyfa markaðnum að kljást við þetta líka. Þetta gerist allt saman. Það er ástæðulaust að ganga fram með þeim hætti sem vinstri stjórnin gerði árið 2013, að skylda til íblöndunar, og sitja svo uppi með það að nokkrum árum seinna kemur þetta sama fólk hér og segir: Heyrðu, bíddu, við áttuðum okkur ekki á því að auðvitað þarf einhvern veginn að búa til þetta lífeldsneyti. Það þarf að búa það til úr einhverju lífrænu. Svo kemur í ljós að það er jafnvel fæða sem fullt af fólki reiðir sig á og það eru líka regnskógar sem gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfi jarðarinnar, ekki bara í Indónesíu og í þessum löndum heldur fyrir allt vistkerfi jarðarinnar. Menn hafa hróflað við þeim núna með skammsýnni löggjöf um skyldu til íblöndunar í eldsneyti hér, eingöngu til að þjóna einhverjum skammtíma pólitískum markmiðum á þeim tíma og einhverjum óraunhæfum væntingum um að lagasetning af þessu tagi geti gripið allan þann vanda sem menn þykjast sjá í hverju horni þegar kemur að umhverfismálum eða loftslagsmálum.

Ég fagna því svo sem að þessi þingsályktunartillaga sé í sjálfu sér komin fram með þessari ágætu greiningu sem hér liggur fyrir um skaðsemi íblöndunarskyldu þegar kemur að pálmaolíu. Ég tel hins vegar að ekki sé nándar nærri nógu langt gengið. Ég minni nú bara á frumvarp sem ég hef sjálf lagt hér fram ítrekað, og það er kannski tilefni til að ég leggi það fram aftur, um að afnema þessi ólög sem vinstri stjórnin setti árið 2013 og hafa orðið þess valdandi að úr ríkissjóði rennur 1 milljarður á ári til erlendra framleiðenda lífeldsneytis.