151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:34]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég fylgdi ekki alveg hv. þingmanni og kannski kemur það ekki á óvart, enda er hann búinn að kveða upp þann dóm að ég skilji ekki náttúruna. Ég ætla ekkert að þræta fyrir það fyrr en það hefur verið afsannað einhvern veginn. Ég er ekki viss um að við séum endilega ósammála í þessu. Ég hef ekki verið að tala um að þessi þingsályktunartillaga sé, eða ég er ekki að tala — ég veit ekki nákvæmlega hvað ég er að tala um út frá sjónarhóli hv. þingmanns en hann vildi meina, ef ég skildi hann rétt, að ég væri eitthvað að misskilja hringrásina í náttúrunni. Ég held að ég geti fullyrt að svo sé ekki. Við hv. þingmaður erum alveg sammála um að það er hægt að búa til eldsneyti úr öllum þessum matjurtum, og það er líka hægt að gera það með því að brenna kol og það er hægt að brenna trjádrumba og það er hægt að búa til alkóhól og hvað veit ég. Að vísu kemur orkuminna eldsneyti út úr þessu, a.m.k. orkuminna en úr jarðefnum, jarðefnaeldsneyti, og það er einn agnúinn á þeirri lagaskyldu sem í gildi er um íblöndun. Við erum að fá dýrara eldsneyti en um leið orkuminna eldsneyti sem kallar á að við þurfum að kaupa meira eldsneyti á hvern kílómetra, sem ég er viss um að við hv. þingmaður erum sammála um að er auðvitað ekki gott. Þessi þingsályktunartillaga liggur hins vegar fyrir, og ég samdi ekki þann texta, sem segir að þetta lífeldsneyti losi meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið. Ég er bara að benda á það að ef menn eru sammála um þetta, af hverju gengu menn þá ekki lengra í því að koma í veg fyrir þessa skyldu til að blanda lífefnaeldsneyti í eldsneytið?