151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara að endurtaka það sem ég var að segja og ég held að hv. þingmaður hafi sett fingurinn á punktinn. Hún sagði: Við getum brennt kolum og við getum brennt tré. Það er akkúrat sá munur sem er á þessu öllu saman. Með því að taka upp gas og kol og olíu og brenna því erum við að hækka hlutfall koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Ef við notum hins vegar eldsneyti sem vex á yfirborði jarðar erum við að hjóla í lokuðu kerfi þar sem við losum koldíoxíð og bindum það og losum það og bindum það. Við erum ekki að bæta nýju koldíoxíði í andrúmsloftið. Ef þetta er misskilið þá fellur þessi málflutningur um sjálfan sig. Þá skiptir engu máli þó að einhver pálmaolía losi svolítið meira koldíoxíð en einhver önnur vegna þess að það er tekið upp aftur af gróðri jarðar.

Það sem gildir hér er að minnka ekki gróðurflatarmál jarðar. Það er gert með því að skipta út frumskógi með pálmaskógi. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að pálmaskógur sé yfir höfuð ræktaður og viljum sjá hann allan í burtu. Það er hægt að framleiða matarolíu með öðrum hætti. Ég get upplýst þingmanninn um það að ef hér er búinn til repjuakur sem er 40 km sinnum 40 km, í nokkrum bútum, þá dugar það á alla íslenska fiskiskipaflotann. Það eru þrenns konar afurðir af einni repjujurt og brennslan á repjujurtinni myndi ekki breyta neinu varðandi kolefnisinnihald andrúmsloftsins vegna þess að þegar við brennum repju er önnur repja sem tekur upp kolefnið úr henni. Menn verða að skilja þennan mun á að bæta kolefni úr iðrum jarðar í andrúmsloftið eða vera að hringsóla í kolefnishringrás jarðar.