151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um þessa hringrás. Þetta er bara einhvers konar náttúrulögmál. Svona er náttúran. Hv. þingmaður var reyndar ekki með neina spurningu til mín og það á ekki að vera þannig að ég sé að spyrja hv. þingmenn í andsvörum þeirra, enda hefur hann ekki tækifæri til að svara núna. En af því að hann nefnir hér að markmið þessarar þingsályktunartillögu sé að losa land, ef ég skildi hann rétt, að losa land frá pálmaskógi yfir í eitthvað annað, þá er það einmitt eitt af því sem umhverfisverndarsamtök hafa bent á í gegnum tíðina að það er sívaxandi landnotkun vegna ræktunar á jurtum sem ekki fara til manneldis. Menn hafa fært fyrir því rök og bent á hvernig heimsmarkaðsverð á m.a. maís hefur hækkað óbærilega mikið vegna niðurgreiðslna til maísbænda, í Bandaríkjunum sérstaklega, niðurgreiðslna sem eiga að stuðla að ræktun á maís í öðrum tilgangi en til manneldis. Þetta hefur valdið hækkun á heimsmarkaði á maís, hefur leitt hörmungar yfir sum byggðarlög í Afríku og virðist ekki þjóna öðrum tilgangi en einhvers konar dyggðarflöggun þegar kemur að umhverfismálum. Þegar menn vilja nota eitthvað annað en t.d. plast eða jarðefnaeldsneyti er gripið til maísins. Aðkoma mín að þessu máli er bara sú að ég spyr: Af hverju ganga menn ekki lengra en með pálmaolíuna þegar kemur að þessu, þegar menn taka sérstaklega fram að hún losi meira af gróðurhúsalofttegundum?