151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:43]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar kemur að þróun og breytingum í lífi okkar, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma, þá er það lífsskoðun mín að farsælast sé að þær fái að gerast svolítið náttúrulega. Þegar kemur t.d. að orkuskiptum hjá okkur held ég að farsælast sé að þau fái svolítið að gerast í takt við tæknina og þróunina og líka markaðinn. Ekki má gleyma því að það eru neytendur og krafa þeirra sem drífur áfram helstu þróunina í lífi okkar. Neytendur gera t.d. kröfur um umhverfisvænni bíla, gera kröfur um að þeir séu öruggari og þar fram eftir götunum. Í því ljósi hafa bílaframleiðendur einmitt brugðist við með þróun jarðefnaeldsneytisbíla sem menga miklu minna í dag en þeir gerðu fyrir nokkrum árum og sú þróun mun alveg örugglega halda áfram. Ég held að hún sé líka orðin miklu meiri vegna þess að fólk er jafnvel farið að gera kröfu um aðra orkugjafa eins og rafmagnsbílana. Við höfum kannski gengið svolítið langt í því að stýra mönnum í rafmagnsbíla. Ég er svolítið efins um að menn eigi að ganga fram af mikilli hörku í þeim efnum vegna þess að svo eru aðrir möguleika eins og vetnisbílar og metanbílar sem fróðari menn í tækniheiminum segja mér að séu jafnvel alveg eins góðir. Þeir eru mögulega sú lausn sem verður ofan á í öðrum löndum en Íslandi og Noregi sem njóta þeirra stórkostlegu gæða að hafa svona mikið rafmagn. Ég held að við eigum að horfa til þessara orkuskipta og leyfa þeim að gerast og auðvitað að einhverju leyti hvetja áfram í einhverjar áttir. En við eigum þá um leið að hætta að eyða peningum í aðgerðir sem snúa að jarðefnaeldsneytinu (Forseti hringir.) vegna þess að það eru svo miklir fjármunir sem renna út úr ríkissjóði á þeim grunni.