151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[16:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek eftir því að í greinargerð með þessu frumvarpi er vísað til Noregs og talað um árangur sem náðist þar við jöfnun á kynjahlutföllum í stjórnum fyrirtækja og að árangurinn hér á landi hafi ekki verið sá sami. Ég vil spyrja hv. þingmann: Var þetta ekki gjörólík löggjöf á Íslandi og í Noregi? Ef ég man rétt tók löggjöfin í Noregi bara til almenningshlutafélaga sem voru skráð á markaði en löggjöfin hér tekur til allra félaga sem eru með fleiri starfsmenn en 50. Er hv. þingmanni kunnugt um það hvernig kynjahlutfallið er í stjórnum almenningshlutafélaga sem eru skráð á markaði hér? Er það ekki bara það sama og í Noregi?

Ég held að það sé verið að bera saman epli og appelsínur þarna. Í raun og veru er ekki heiðarlegt í greinargerð að hafa þetta með þessum hætti því að löggjöfin er ólík að þessu leyti, hún gengur miklu lengra en í Noregi í inngrip af þessu tagi, inn í eignarréttinn, auk þess sem ég veit ekki til þess að það sé nokkurs staðar annars staðar löggjöf með þessum hætti í frjálsum ríkjum þar sem eignarrétturinn er virtur einhvers.