151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst ég verða að fara í andsvar vegna þess að hv. þingmaður notaði orðið Sjálfstæðisflokkur Íslands. Ég er mjög ánægður með að vera í Sjálfstæðisflokki Íslands. Ég vil þakka þingmönnum Miðflokksins, við getum kallað hann Miðflokks Íslands, fyrir skelegga frammistöðu í þessari umræðu. Ég er að mestu sammála hv. þingmanni, en ég er aðeins að velta fyrir mér skilgreiningu á hugtakinu jafnrétti. Nú er jafnræðisregla í stjórnarskránni og við getum haft einhver pólitísk markmið um það að hafa kynjahlutfallið jafnt alls staðar, hvar sem kynin koma fyrir. En hefur það í huga hv. þingmanns eitthvað með hugtakið jafnrétti að gera? Við eigum jafnan rétt á einhverju. Það má ekki mismuna fólki eftir kyni. En felst í hugtakinu jafnrétti að menn eigi rétt á því að vera kosnir í hverjum kosningum í hlutafélagi af því að það eru fleiri af hinu kyninu þar fyrir? Ég held að menn séu algerlega búnir að þvæla þessu hugtaki út og suður, ekki bara í þessari umræðu heldur margri annarri. Menn líta svo á að það verði að vera jafnmargir af hvoru kyni eða öllum kynjum alls staðar. Af því að ég veit að hv. þingmaður lærði lögfræði, hvaða skilning hefur hann á hugtakinu jafnrétti eða jafnræði í þessu sambandi?