151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er bara ekki viss um að formaður Viðreisnar, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skilji hugtakið jafnrétti. Er það jafnrétti að það séu jafn margir af hvoru kyni á hverjum stað? Er það risastórt jafnréttismál að það séu jafn margir karlar hjúkrunarfræðingar eða jafn margir karlar kennarar? Nei, auðvitað hefur það ekkert með jafnréttismál að gera, það er ekki jafnrétti. Það getur verið pólitísk markmið hjá okkur. Það er innihaldslaust að tala um að það sé ekkert frelsi án jafnréttis. Við erum ekkert að tala um það. Við erum að tala hér um eignarrétt fólks þar sem stjórnmálamenn ætla að þvinga með refsingu til að tryggja að þú afsalir þér ákveðnum eignarrétti til að jafna einhver kynjahlutföll í stjórn. Ef menn eru komnir þarna í jafnréttishugtakinu eru þeir úti á túni.