151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég notaði að vísu ekki orðið fals. Ég sagði: Í besta falli óheiðarlegt, í versta falli blekking (BergÓ: Blekking.) sem er næsti bær við fals. Það er af því að verið er að bera saman ólíka löggjöf og þróunina, hvernig hlutfall kynjanna hefur verið í stjórnum. Norðmenn eru bara með þessa reglu um almenningshlutafélög sem eru á markaði. Þar er skylda um jafnað kynjahlutfall, þ.e. ekki minna en 40%. Þeir hafa náð því af því að það er bara skráð á markaði, það er ekkert hægt annað. Við fórum hins vegar allt aðra leið í löggjöfinni fyrir sjö árum, gengum lengra. Þá gæti verið um að ræða þrjá vini eða þrjár vinkonur sem stofna fyrirtæki og það er gengið það langt að hafa verður einhvern af hinu kyninu í stjórn, og því er haldið fram að við höfum ekki náð sama prósentuhlutfallinu og Norðmenn, (Forseti hringir.) en það er verið að bera saman ólíka hluti. Ég er sannfærður um að hlutfallið er 60/40 eða um það bil í okkar skráðu fyrirtækjum á markaði.