151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þætti gaman að sjá hvað stuðningsmenn þessa frumvarps segðu ef við kæmum með frumvarp um að það yrðu að vera jafnmargir af hvoru kyni í háskólunum. Hvað myndu menn segja við því? Þetta er auðvitað miklu meira íþyngjandi en að hafa aðgangsstýringu í háskóla eftir kyni. Hér er verið að beita þvingunarúrræðum og refsingu. Hitt er bara aðgangsstýring. Svo hafa háskólar auðvitað alls konar aðgangsstýringar eftir einkunnum og einhverju. En ég get alveg lofað því að stuðningsmenn þessa frumvarps myndu líta á það sem sérstaka aðför ef við krefðumst þess að jafnmargir væru af hvoru kyni í hverri deild í háskóla. Það væri nú bara gaman að koma með tillögu um þetta og sjá viðbrögðin en þetta er gott dæmi um að þetta snýst bara alltaf um einhverja pólitík. (Forseti hringir.) Mönnum er alveg sama um einhverja stjórnarskrá, þetta eru allt pólitísk markmið.