151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Það er nokkuð víst að Covid-19 sjúkdómurinn er ekki síðasti heimsfaraldurinn sem mannkynið mun þurfa að kljást við. Hvernig tengist sú staðreynd dýravelferð? Nú búa um 8 milljarðar manna á jörðinni en þeir voru um helmingi færri þegar ég fæddist fyrir rúmum 40 árum. Jarðarbúar stefna í að verða 10 milljarðar eftir um 30 ár. Samhliða þessari miklu fjölgun jarðarbúa hefur kjötframleiðsla aukist mjög mikið með tilheyrandi samneyti við dýr. Nú er talið að rekja megi kórónuveiruna frá leðurblökum til hreisturdýra og þaðan til manna. SARS-faraldurinn, svínaflensuna, fuglaflensurnar og fleiri faraldra má einnig rekja til náins samneytis manna og dýra. Vegna hrikalegra aðstæðna á svokölluðum matarmörkuðum úti í hinum stóra heimi geta þeir virkað sem gróðrarstía fyrir stökkbreyttar veirur og sem stökkpallur veira á milli tegunda. Í því ljósi má velta fyrir sér hvernig við komum í veg fyrir hættulega sjúkdóma í framtíðinni eða höldum þeim a.m.k. í lágmarki. Því þarf að huga miklu betur að þeim aðstæðum sem dýrin búa við og huga að hinni gegndarlausu kjötframleiðslu.

Herra forseti. Við munum ráða niðurlögum kórónuveirunnar með vísindin að vopni. En við munum hins vegar aftur þurfa að kljást við ættingja veirunnar áður en langt um líður ef við breytum ekki um stefnu í samneyti okkar við dýr, hvað varðar aðbúnað þeirra og kjötframleiðslu. Dýravelferð er nátengd velferð mannsins. Það er mjög ljóst í núverandi ástandi. Hugsum vel um dýr, þá farnast okkur mönnunum vel.