151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar .

361. mál
[14:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er ekki oft sem það gerist en núna kemur maður upp í pontu með gleði og ánægju yfir því að verið sé að afgreiða þetta mál úr þinginu hér í dag. 50.000 kr. eingreiðsla, skatta- og skerðingarlaus, skiptir gífurlega miklu máli og sérstaklega að við erum að reyna að tryggja að hún komist í hendur þeirra sem mest þurfa á að halda fyrir jól. Við megum heldur ekki gleyma að í þessu frumvarpi er nokkuð sem hefur ekki sést lengi í frumvarpi er varðar örorkulífeyrisþega, það er eins og segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

„Heildarhækkun bóta almannatrygginga til tekjulægstu lífeyrisþeganna yrði því um 19.700 kr. á mánuði eða 6,1% um áramótin 2020/2021.“

6,1% samsvarar einmitt launaþróun og nú er loks verið að setja þetta inn og ber að þakka það vegna þess að batnandi mönnum er best að lifa. Við þurfum að sýna oftar þau vinnubrögð sem við höfum sýnt í þessu máli. Allir setja þetta fram í sátt og samlyndi og það þurfum við að gera oftar. Við þurfum að taka höndum saman og sjá til þess að enginn þurfi að lifa í fátækt eða sárafátækt á Íslandi.