151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er svo sem alveg rétt og ég get tekið undir margt í gagnrýni hv. þingmanns. En það er að sama skapi tilfellið að innan hálendis Íslands er ein stærsta ef ekki stærsta eyðimörk Evrópu, sem er svolítið merkilegt og ég veit ekki til þess að til séu neinir sértækir sjóðir sem fjármagna rannsóknir í þá veru, t.d. í jöklafræði og öðru. Jú, vissulega er jarðfræðideild í Háskóla Íslands og auðvitað horfa ýmsir í fræðaheiminum til þessa svæðis. En allt eru það almenn úrræði sem hv. þingmaður nefndi. Ég sé alveg fyrir mér að eitthvað jákvætt gæti komið út úr því að hafa þarna eitthvert sérhæft úrræði til að styðja við það markmið.

Ég veit að hv. þingmaður er í umhverfis- og samgöngunefnd sem mun væntanlega fá þetta mál til meðferðar. Mig langar til að hvetja hann til þess, í ljósi þess að þetta frumvarp liggur þó fyrir, að skoða hvort hægt er að bæta einhverjum sjóði við, úr því að hv. þingmaður nefnir að það vanti sjóð sem myndi stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Mér finnst jákvætt að verið sé að reyna að vernda þetta svæði. Ég hef ýmislegt út á frumvarpið að setja og mun fara yfir það í ræðu hér á eftir og meira að segja er mjög margt sem mér þykir óásættanlegt í núverandi drögum. En þarna er einföld leið fyrir okkur til að laga ágalla. Þó að aðrar stofnanir og aðrir sjóðir gætu hugsanlega tekið á þessu mætti bæta úr þessum ágalla og setja einhvern slíkan sjóð inn í frumvarpið.