151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er saga þjóðgarða í heiminum 156 ára gömul og á þeim tíma hefur safnast upp mikil reynsla af rekstri þeirra. Ég er ekki alveg sannfærður um að í þessu frumvarpi sé tekið tillit til allrar þeirrar reynslu og mun ég fjalla um það á eftir. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að gerð verði mistök við stofnun þjóðgarðs. Það er auðvitað rétt. Þegar við tökum okkur eitthvað nýtt fyrir hendur eru nánast alltaf gerð einhver mistök. Ég velti því samt fyrir mér, í ljósi þess að því miður eru heilbrigðiskerfi heimsins öll mun yngri og hægt er að heimfæra þessa aðvörun yfir á þau, hvort það geti verið að ef við hefðum vitað að hugsanlega yrðu gerð mistök í tengslum við heilbrigðiskerfið hefði það þótt ástæða til að fara ekki af stað með það á sínum tíma. Mér finnst möguleg hætta á mistökum ekki góð rök fyrir því að stofna ekki þjóðgarð. Ef við gerum mistök með því að ofvernda svæðið þá væri mögulega hægt að bakka með það og lagfæra þau mistök. Kannski væri hægt að læra eitthvað í leiðinni, bæta í þá miklu þekkingu sem safnast hefur saman í 156 ára sögu mannkyns af rekstri þjóðgarða. Er ekki í lagi að gera örlítil mistök ef niðurstaðan verður sú að það verði til bóta fyrir alla Íslendinga og allt mannkynið til lengri tíma litið?