151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[22:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Það er stundum gott að vera skreflangur þegar mikið liggur við. Í ræðu minni áðan þar sem ég ræddi frumvarp um hálendisþjóðgarð las ég og fjallaði um umsagnir sem ég er búinn að vera að fara yfir hér í dag. Margar hverjar eru ansi góðar eða athyglisverðar. Hér er umsögn frá manni sem er fyrir austan og þekkir Vatnajökulsþjóðgarð mjög vel. Mig langar að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Ég tel að framlagning lagafrumvarps um stofnun hálendisþjóðgarðs og afnám laga um Vatnajökulsþjóðgarðs sé alls ekki tímabær og vil ég nefna nokkur atriði því máli til stuðnings:

Frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið skortur á fjármagni til að framkvæma rekstur þjóðgarðsins. Ekki hefur verið hægt að ráða nægilegan fjölda landvarða til gæslu innan garðsins. Ekki hefur verið lagt í þær fjárfestingar sem þarf til að byggja aðstöðu fyrir upplýsingagjöf á svæðinu og stjórnunar umferðar um garðinn. Vegagerðin hefur ekki fengist til að sinna vegum og slóðum sem þeir bera ábyrgð á samkvæmt vegalögum, um vegagerð og viðhald vega innan þjóðgarða. Til deilna hefur komið milli þjóðgarðsins og Skógræktarinnar sem hefur með umsjón þjóðskóga að gera, um umhirðu þjóðskóga innan þjóðgarðsins við Jökulsárgljúfur.“

Þó að sá ágæti þjóðgarður sé búin að vera til lengi er ýmsu ábótavant miðað við þetta og þarf að skoðast mjög vel ef á að koma upp hálendisþjóðgarði sem núverandi Vatnajökulsþjóðgarður fellur inn í. Ef ég held aðeins áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Núverandi skipulag Vatnajökulsþjóðgarðs er byggt á samkomulagi við aðliggjandi sveitarfélög, sem var gert við ákvörðun um stofnun garðsins. Margoft síðan hefur verið reynt að koma á breytingum á þeim lögum án samráðs við þau sveitarfélög sem hafa land að þjóðgarðinum, þrátt fyrir ákvæði um það í upphaflegu lögunum og tókst með naumindum að koma í veg fyrir þær breytingar. Tilhneiging hefur verið til að þetta verði stofnun í Reykjavík sem sveitarfélög og íbúar þeirra svæða sem að þjóðgarðinum eiga land hafi ekkert með málefnið að gera. Stefnt er að því að öll stjórnun verði tekin úr höndum sveitarfélaga.“

Í þessari umsögn kemur annað fram en hefur komið fram í ræðum þeirra sem mæla málinu bót. Það er erfitt að vita hvort réttara.

„Afnám laga um Vatnajökulsþjóðgarð og stofnun þjóðgarðastofnunar er skref aftur á bak, upptaka einræðis í stað lýðræðis. Ráðinn verður einn yfirmaður sem þarf aðeins að fara eftir eigin sannfæringu. Stjórnunarfyrirkomulag það sem notað hefur verið við stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs er enn í þróun. Klárum þá þróun áður en við förum að koma á nýju skipulagi.“

Það er nefnilega mergurinn málsins að í hverri umsögninni á fætur annarri er kallað eftir því að undirbúningsvinnu verði lokið áður en farið verður í það stóra verkefni sem (Forseti hringir.) stofnun hálendisþjóðgarðs er.