151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[23:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Mér skilst að ég hafi aðeins fimm mínútur í viðbót til að ræða þetta stóra mál í 1. umr. Því ætla ég að beina sjónum mínum að öðru megineinkenni þess í hinu stóra samhengi. Í fyrri ræðu talaði ég um að þetta væri hluti af ímyndarstjórnmálum eða merkimiðastjórnmálum sem það svo sannarlega er. En það veldur mér talsverðum áhyggjum að með þessu máli birtist sýn sem hefur verið að aukast ásmegin, festast í sessi, sérstaklega hjá hreyfingum á vinstri kantinum, sem felur það í sér að náttúran sé á einhvern hátt heilagt fyrirbæri og maðurinn sé þar aðskotahlutur, að náttúran sé nánast guðleg en maðurinn vandamálið. Þetta er ekki góð leið til að nálgast umgengni mannsins við náttúruna.

Náttúran er okkur auðvitað mikilvæg en við mennirnir þurfum að líta svo á að við viljum vernda náttúruna fyrir okkur, fyrir manninn, en ekki að loka náttúruna af frá mannkyninu. Með þessu frumvarpi, sem á margan hátt er býsna öfgakennt, eins og sjá má af því að fulltrúar a.m.k. tveggja ríkisstjórnarflokka hafa ekki treyst sér til að styðja það hér í umræðunni í dag, er einmitt verið að gera þetta, að loka náttúruna af frá manninum og líta á hann nánast sem óæskilegan. En maðurinn gerir náttúruna á margan hátt svo miklu betri og nýtir hana vonandi oftast á skynsamlegan hátt. Það að tilvist okkar mannanna í náttúrunni sjáist er að mínu mati til þess fallið að gera náttúruna verðmætari. Tökum sem dæmi fyrsta þjóðgarð okkar Íslendinga, Þingvallaþjóðgarðinn. Ef staðið er á Hakinu og litið yfir Þingvelli, er það ekki fallegri og merkilegri sýn þegar við sjáum Þingvallabæinn og kirkjuna frekar en að þarna væru engin merki um aðkomu mannanna, um söguna? Það sama á við um hálendið. Við viljum öll, held ég mér sé óhætt að segja, Íslendingar, vernda hálendið en við viljum viðhalda tengslum mannsins við hálendið. Og þó að sú tenging sjáist í einhverjum tilfellum, eins og þegar við framleiðum umhverfisvæna græna orku eða þegar við gerum þá innviði sem gera Íslendingum flestum kleift að ferðast um landið og njóta þess, þá erum við ekki að rýra hálendið. Við erum að bæta það. Við erum að auka við vægi náttúrunnar.

Það sem mér finnst ískyggilegt við þetta mál er að það felur í sér að maðurinn sé óvelkominn í náttúrunni, að hann vilji bara vita af henni á sínum stað algerlega ósnertri, jafnvel óséðri, en eigi ekki að vera þar sjálfur, eigi a.m.k. ekki að láta sjást nein ummerki um viðurvist sína. Auðvitað tengist þetta svo fjölmörgum öðrum málum, eins og ég náði aðeins að koma inn á í fyrri ræðu minni, eins og því að þarna er kannski verið að loka á helsta framlag Íslendinga til umhverfismála. Stærsta málið í umhverfismálum á heimsvísu eru loftslagsmálin. Nú er ríkisstjórnin að miklu leyti að loka á möguleika Íslendinga til að láta áfram gott af sér leiða í þeim efnum og um leið að taka lýðræðislegan rétt af landsmönnum, réttinn til að stjórna sínu landi og réttinn til að njóta þess að vera Íslendingar og fá að ferðast frjálsir um landið sitt og njóta þeirra kosta sem það hefur upp á að bjóða.