151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[15:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir lengingu á gildissviði hlutabótaleiðar líkt og meiri hlutinn leggur til. En þarna er jafnframt gert ráð fyrir að stöðuhlutfallið geti farið niður í 25% og við höfum tekið eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd að fyrirtæki hafa kallað eftir þessu. Þau vilja frekar hafa t.d. fjóra starfsmenn í sambandi við atvinnurekandann, og þá alla vega í 25% stöðuhlutfalli, en að hafa tvo í 50%. Þau vilja halda ráðningarsambandi við fleiri þannig að hægt sé að kalla fólk til starfa hratt og vel og fyrirtækin hafi ekki misst það eitthvað annað þegar við förum að rétta úr kútnum. Það er mikilvægt að þetta verði gert svona. Ég vona að ef meiri hlutinn ætlar að fella breytinguna, sem mér sýnist að hann ætli að gera, (Forseti hringir.) þá skoði hv. velferðarnefnd þetta a.m.k. og skoði þær umsagnir sem komið hafa til hv. efnahags- og viðskiptanefndar um þetta efni.