151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar .

361. mál
[15:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nú erum við að fara að greiða atkvæði um styrk upp á 50.000 kr., skatta- og skerðingarlaust, sem er mikið fagnaðarefni. Það setur samt ákveðið spurningarmerki við hvers lags kerfi við höfum búið til að á sama tíma og verið er að hækka þá sem þurfa mesta hækkun um 19.700 kr. er fólk sem fær hnút í magann við að fá hækkun. Það eru þeir einu sem eru inni í almannatryggingakerfinu. Að fólk þurfi að fá hnút í magann yfir því að fá hækkun vegna þess að það getur skert sérstakar húsaleigubætur eða aðrar bætur er fáránlegt og okkur til háborinnar skammar. Ég vona heitt og innilega að eins og við vorum sammála um að gera þetta séum við líka sammála um að enginn eigi að hafa áhyggjur af því að fá hækkun.