151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

um fundarstjórn.

[16:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem snýst ekki bara um orð heldur líka um stíl. Það er nefnilega mjög mikilvægt fyrir þingmenn að geta tjáð sig frjálst hér í pontu um skoðanir sínar á pólitískum gjörðum annarra í þingsal, ýmist í meiri hluta eða minni hluta, án þess að þurfa að eiga von á því í sífellu að vera hirtir af þeim sem stendur fyrir aftan ræðumann. Það er hluti af tjáningarfrelsinu að þurfa ekki að eiga von á því í sífellu að vera tekinn niður af hæstv. forseta Alþingis sem setur ofan í við þingmenn um orðaval. Hæstv. forseti notar orð um aðra þingmenn eins og að þeir fari af hjörunum og gerir þannig lítið úr upplifun fólks á gjörðum hæstv. forseta. Það er nefnilega líka hluti af þessu öllu, hinu stóra samspili okkar hér í þingsal, að við berum virðingu hvert fyrir öðru og gerum ekki lítið úr upplifun eða orðum annarra.