151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:56]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Frumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem tekur á verklagi og kannski ekki síður verkaskiptingu þeirra stofnana sem fara með þessi mál, er tímabært. Í nokkurn tíma hefur blasað við að það hefur þurft að skýra og skerpa þessi mál og mér sýnist við fyrstu yfirferð að með þessu frumvarpi takist ágætlega til hvað það varðar. Ein helsta meinsemdin, ef hægt er að nota það orð, í dómum um skattalagabrot, hvað varðar málsmeðferð, hefur verið álitaefnið um ne bis in idem-regluna, gagnrýni og umfjöllun dómstóla hvað varðar það álitaefni og auðvitað sú gagnrýni sem við höfum fengið hvað það varðar frá Mannréttindadómstólnum. Það er gleðilegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli sjá að bregðast þarf við því þegar Mannréttindadómstóllinn telur okkur fara í bága við þann sáttmála, enda eru samningsaðilar skuldbundnir til þess eins og þekkt er. En af lestri greinargerðarinnar sýnist mér þetta vera ástæða þess að stjórnvöld skipuðu nefnd sem leggja átti til breytingar með það fyrir augum að tvöföldum refsingum yrði ekki lengur beitt við rannsókn og saksókn skattalagabrota. Ég verð að segja að mér finnst nefndin hafa verið vel skipuð og fólkið vel fært til að skila góðum árangri við frumvarpssmíðina.

Ástæða og forsaga frumvarps hæstv. fjármálaráðherra eru dómar Mannréttindadómstóls Evrópu vegna tilvika þegar skattalagabrot hafa bæði leitt til álags vegna vangoldinna skatta og saksóknar. Málin hafa öll varðað 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans sem fjallar um þann rétt. Þetta er auðvitað ákveðið grundvallaratriði í sakamálaréttarfari og um leið varðandi þann rétt og þau mannréttindi sakbornings að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis fyrir sama brotið. Stjórnvöld telja samkvæmt þessu frumvarpi að dómar Mannréttindadómstólsins kalli á þær lagabreytingar sem hér er verið að leggja fram, vitaskuld vegna þess að litið er til niðurstöðu dómstólsins og vegna þess að dómar Mannréttindadómstólsins hafa þýðingu fyrir okkur hérlendis og í þessu frumvarpi er verið að mæta þeim kröfum sem dómstóllinn leggur upp með. Í greinargerðinni er vísað til tiltekinna dómsmála þar sem niðurstaða dómstólsins var sú í þremur tilteknum málum fyrir íslenskum dómstólum að menn hefðu verið saksóttir eða mönnum refsað tvívegis fyrir sama brot með álagningu viðbótarálags á skatta og síðan í framhaldinu með höfðun refsimáls. Sú framkvæmd þykir þá fara í bága við 4. gr. 7. samningsviðaukans. Það er í mínum huga mikill kostur að nú verði ekki lagt álag á skattstofna ef til stendur að kæra mál til lögreglu. Það skiptir máli og það er vitaskuld ákveðið grundvallaratriði í þessu sambandi. Við erum vonandi með þessu frumvarpi að loka þeim kafla að ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessu atriði. Réttarfarslegar afleiðingar af því að standast ekki skoðun um verklag að þessu leyti eru einfaldlega að mál fara í vaskinn. Það hefur gerst hér á landi.

Atriði í þessu frumvarpi, sem ég tel að sé líka til bóta, er að ríkissaksóknari setur fyrirmæli um hvaða gerð mála fari til lögreglu. Það er í höndum ákæruvaldsins að ákveða það, það er í höndum ákæruvaldsins að draga þá línu en ekki skattrannsóknarstjóra. Það er eðlilegt í mínum huga að það sé þannig. Það mun líka hafa í för með sér þær praktísku afleiðingar og þau praktísku áhrif að þannig má stýra álaginu og tryggja að fyrst og fremst sé verið að fylgja eftir þeim málum sem þykja alvarlegust hjá ákæruvaldinu. Það er ágætisumfjöllun um það í greinargerð hver framkvæmdin hefur verið að þessu leyti á Norðurlöndunum og mér sýnist við fyrstu yfirferð að litið hafi verið til framkvæmdarinnar þar við samningu frumvarpsins. Það er rakið skilmerkilega í greinargerðinni. Ég fæ ekki beint séð að augljóslega sé verið að elta eitt land frekar en annað. Það er vitaskuld heldur ekkert aðalatriði hér, en mér finnst kostur að sjá að það hafi verið rýnt nokkuð gaumgæfilega hvernig aðrar Norðurlandaþjóðir hafa farið að í þessum efnum. Og svo sanngirni sé gætt þá er það nú ekki þannig að Ísland sé eina ríkið sem hefur staðið frammi fyrir því vandamáli að skýra á milli álagningar og saksóknar þannig að tryggt sé að ekki sé farið í bága við regluna um að mönnum verði ekki refsað tvívegis fyrir sama brotið.

Samkvæmt frumvarpinu er líka tekið af skarið um að rannsókn sakamála vegna skattalagabrota fari fram undir stjórn ákæranda. Það er eðlilegt að fela embætti héraðssaksóknara rannsókn þessara mála því að það er jú þannig með sakamálarannsókn að henni þarf að vera stýrt af lögreglu. Það atriði er skýrt í frumvarpinu og það þarf að vera skýrt. Það er líka erfitt, held ég, að ætla að fara að útfæra þá breytingu að færa lögregluvald til skattrannsóknarstjóra umfram það sem segir nú þegar um réttarstöðu þeirra sem sæta rannsókn skattrannsóknarstjóra eftir gildandi lögum. Markmiðið og niðurstaðan sýnist mér samkvæmt þessu verða sú að meiri hluti mála verði leystur innan skattkerfisins og einungis stærri og alvarlegri mál verði tekin til rannsóknar lögreglu. Það held ég að sé kostur. Ég hef ekki skoðað sérstaklega það að færa skattrannsóknarstjóra undir embætti ríkisskattstjóra en ég myndi þó segja að með tilliti til eðlis verkefna þessara tveggja embætta þá fari vel á þeirri breytingu og ég hlakka til umræðunnar hér í þingsal um það atriði. Ég held að í því sambandi sé einmitt eðlilegt að líta til þess hvernig önnur Norðurlönd hafa leyst úr þessu.

Herra forseti. Mér finnst ekki annað hægt í þessari umræðu, um frumvarp sem hefur í för með sér ákveðna grundvallarbreytingu á því kerfi sem fer með stór og umfangsmikil skattalagabrot, en að nefna fjármögnun kerfisins. Það er staðreynd að málsmeðferðartími hefur verið vandamál og málsmeðferðartíminn er vandamál víðar í kerfinu en bara í útlendingamálum, eins og stundum má skilja á orðum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, en málsmeðferðartími hefur verið vandamál í meðferð stærri skattalagabrota og annarra efnahagsbrota. Langur málsmeðferðartími er sjónarmið sem fengið hefur aukið vægi. Það vægi er raunar alltaf að aukast og langur málsmeðferðartími er sjónarmið sem sífellt meira er litið til, bæði af innlendum dómstólum og alþjóðlegum. Það sjáum við t.d. í dómaframkvæmd Landsréttar í dag og óhóflegur dráttur á meðferð máls felur vitaskuld í sér nokkuð alvarleg brot á réttindum sakborninga. Það er þungbært að meðferð máls skuli dragast úr hófi en ástæða þess að það gerist er yfirleitt einföld. Hvað varðar þessi brot, skattalaga- og efnahagsbrot önnur, sér í lagi þau stóru, þá er veruleikinn einfaldlega sá að það eru brot og mál sem eru þung í rannsókn og saksókn, þar er ógrynni af gögnum sem þarf að fara í gegnum og þau mál vinnast einfaldlega fremur hægt. Þar er líka staðreynd að í gegnum tíðina hafa of fáar hendur verið að vinna of mörg verk, of mörg mál.

Samfélagslega hefur það þau áhrif að dómstólar sem dæma í þessum málum hafa talið að ákveðin brot í ákveðnum málum hafi verðskuldað tiltekna refsingu, en dæma hana vægari en þeir telja sjálfir að rétt hefði verið vegna málsmeðferðartímans. Sú niðurstaða er ekki samfélagslega góð þannig að ég biðla til hæstv. fjármálaráðherra að hugleiða það atriði samhliða þessu frumvarpi út frá réttindum sakborninga annars vegar og burðum kerfisins hins vegar, og kannski í þriðja lagi, og það er nú ekki síðasta atriðið, út frá þeim samfélagslegu hagsmunum sem eru að baki, því að skattalagabrot eru jú brot gegn samfélagslegum hagsmunum, þau skekkja samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem fara að settum reglum, fyrirtækja sem keppa við fyrirtæki sem gera það ekki . Ég biðla til fjármálaráðherra um að gefa kerfinu samhliða þessu frumvarpi burði og kraft til að geta farið í þau mál þannig að málsmeðferðartíminn verði betri. En um leið, þar sem verið er að skýra kerfið og mæta kröfum mannréttindasáttmála til fulls, ætti það líka að vera keppikefli hæstv. fjármálaráðherra að gefa kerfinu færi á að sinna þessum málum vel en líka hratt. Ég myndi í því sambandi hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að fara nú að koma í framkvæmd tillögum sem liggja fyrir og tillögum sem ég held að legið hafi fyrir í nokkurn tíma. Þetta hefur verið rýnt, við eigum gögnin, við eigum áætlanir um það hvernig við sem samfélag getum tekið á svindli og svikum sem þessum, sem kosta samfélagið allt miklar upphæðir, við þurfum að horfa á það og setja aukinn fókus á það að hér er um að ræða brot gegn samfélaginu öllu og hagsmunum almennings. Þessi brot hafa vitaskuld áhrif á burði ríkisins til að fjármagna t.d. samfélagslega mikilvæg verkefni.

En svo ég dragi þetta saman þá fagna ég þessu frumvarpi. Mér sýnist að hér hafi tekist nokkuð vel til við að leysa úr þeim vandamálum sem við okkur hafa blasað og ég myndi, eins og ég kom inn á í lokin, samhliða þessu frumvarpi óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra fari í það að veita kerfinu fjármuni til þess að geta unnið þau mál sem koma til kasta kerfisins, hraðar en nú er, og það verður auðvitað gert með auknu fjármagni, en líka að fram fari pólitísk vinna við að setja í framkvæmd þær tillögur sem þegar liggja fyrir um að við sem samfélag þurfum að taka á þessum brotum með markvissari hætti. Ég myndi nú halda að þær aðstæður sem uppi eru í íslensku efnahagslífi í dag kalli á að við náum inn þeim skatttekjum sem fyrirtæki og einstaklingar ættu að greiða því að við þurfum sem samfélag sannarlega á öllum þeim tekjum að halda.