151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:36]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir vinnu hennar í þessum málum. Eins og ég hef sagt er dýrmætt að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafi getað sett til hliðar daglegar pólitískar deilur til að vinna að málinu. Ég held að það væri ekki komið hingað nema vegna þess að okkur hefur tekist það og einnig að tengja saman ólík kerfi.

Eins og ég rakti í inngangsræðu minni hér áðan mun innleiðingin skipta máli. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs og fjárveitingum í félagsmálaráðuneyti höfum við tryggt allt það fjármagn sem þarf á næsta ári til innleiðingar, til að reka sérstakt innleiðingarteymi og til að þróa og hanna þær stafrænu lausnir sem þarf til að sinna þeirri vinnu. Það er að fullu fjármagnað á næsta ári.

Þegar kemur að árinu 2022 hefur verið búið um hnútana hvernig þetta mál verður unnið. Það er gríðarlega mikilvægt. Það snýr að fjármálaáætlun en hins vegar á eftir að forma endanlega hvaða fjárhæðir þarf til þess á innleiðingartímanum. Í frumvarpinu er kveðið á um að lagt sé til við þingið að í kostnaðarmati verði það tekið inn í fjármálaáætlun og að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga haldi utan um það. Áætlaður heildarkostnaður er 1,3–2 milljarðar á ári á innleiðingartímanum. Fram kom í þeim hagrænu greiningum sem voru unnar, bæði af Birni Brynjólfi Björnssyni og Haraldi Líndal, að þá vinnu þurfi að vinna ítarlegar og nákvæmar. Það breytir ekki því að frumvarpið sjálft kveður á um ríkar skyldur til að kerfin starfi saman.

Lagatextinn er algerlega skýr. Í rauninni á að vera tryggt að þessar breytingar verði. (Forseti hringir.) Ég held hins vegar að mikilvægt sé að við höldum þessari þverpólitísku samstöðu til að fylgja því vel úr höfn að málinu sé fylgt eftir. (Forseti hringir.) Það áréttaði ég hér í máli mínu og það er mikilvægt að við höldum því áfram.