151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og er sammála því að þessi þverpólitíska samstaða skiptir höfuðmáli, en þá þarf líka að ríkja þverpólitísk samstaða innan ríkisstjórnarinnar. Það er ekki bara hægt að treysta á okkur í stjórnarandstöðunni að tryggja málum framgang hér inni. Við þurfum eiginlega að treysta á ykkur í ríkisstjórnarflokkunum, að þar ríki ákveðin samstaða svo að við þurfum ekki að grípa boltann í þessu máli. En við vonum að sjálfsögðu það besta og ég mun ekki liggja á mínu liði hvað þetta varðar. Þetta eru mál sem skipta alveg ótrúlega miklu máli, einmitt til að tryggja þessa samfellu, þessa snemmtæku þjónustu og að kerfin séu í rauninni að tala saman. Ég held að við komumst langt ef við bara náum því.